Sumarið 2025 var einstaklega gott hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum á Húsavík, bæði hvað varðar veður og fjölda ferðamanna. Veðurfar var hagstætt og sjólag gott, sem gerði ferðirnar bæði öruggar og ánægjulegar.
Framkvæmdastjóri Gentle Giants, Stefán Guðmundsson, lýsti tímabilinu sem mjög ánægjulegu og benti á að október og nóvember væru einnig mikilvægir mánuðir í starfseminni. Hann sagði að bókunarstaðan væri góð og að áhugi á sérferðum til Flateyjar hefðu aukist verulega.
Einnig má nefna að nýr hvalaskoðunarbátur, Vinur, var tekinn í notkun af Sjóferðum Arnars, sem styrkti enn frekar þjónustuframboðið á svæðinu.
Hvalaskoðun á Húsavík heldur áfram að vera eitt helsta aðdráttarafl svæðisins með vaxandi vinsældum meðal innlendra og erlendra ferðamanna.
„Starfsemin okkar er algjörlega háð tíðarfari og það hefur verið fádæma gott í sumar og það sem af er tímabilinu. Við erum bara nokkuð kát með það sem búið er – og það er enn slatti eftir af tímabilinu. Október og nóvember skipta líka máli, hver einasti dagur telur,“ segir Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gentle Giants hvalaferða í stuttu spjalli við Vikublaðið.
Þrátt fyrir bjartsýni á tímabilið hefur Stefán áhyggjur af stefnu stjórnvalda þegar kemur að ferðaþjónustunni.
„Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að stjórnvöld fari að skattleggja andrúmsloftið sem við öndum að okkur á hverjum degi. En það eru líka margir ljósir punktar í þessu.“
Einn þeirra ljósu punkta sem Stefán nefnir er Flatey á Skjálfanda, sem hefur orðið sífellt stærri hluti af starfsemi Gentle Giants en Stefán á einmitt ættir að rekja til Flateyjar.
„Við förum mikið út í Flatey með hópa, enda hefur Flatey átt hug minn meira og minna síðustu ár. Ég er hreinlega ekki frá því að ég hafi verið meira þar í sumar en á Húsavík. Það er svo gaman að vera í eyjunni og byggja upp frá grunni. Við erum að undirbúa okkur betur fyrir það að fólk vilji í auknum mæli heimsækja þessa paradís – hún er algjörlega einstök,“ segir Stefán og það leynir sér ekki að eyjan er honum kær.
„Ég hef þvælst þarna síðan ég var nokkurra mánaða gamall og það er alveg sama í hvaða erindagjörðum eða hversu oft ég fer þarna. Um leið og ég er búinn að binda, drepa á og stíga upp á bryggju þá einhvern veginn dempast allt hjá manni. Það er svo ótrúlegt,“ útskýrir hann og bætir við að hann verði var við svipaða reynslu hjá viðskiptavinum sínum.
„Það var einmitt kona með okkur fyrir stuttu í eyjaferð og hún sagði að hún fyndi hjá sér nýja nálgun og nýjan kraft í þessu umhverfi. Og hún var bara koma út í Flatey í fyrsta skipti. Þetta er ein alls herjar núvitund og það hugtak fær bara nýja merkingu þegar maður stígur þarna í land,“ segir Stefán stoltur.
Gentle Giants hefur nýtt sér Flatey í kynningarferðum, m.a. í tengslum við Vestnorden ráðstefnuna sem fór nýverið fram á Akureyri.
„Við buðum upp á fría kynnisferð með fulltrúum ferðaskrifstofa – hvalaskoðun, Flatey, smá smakk – og ferðirnar fylltust á augabragði. Við fórum út með þrjá rib-báta, 36 manns, kokka og tilheyrandi – og fólk var alveg í skýjunum.“
Stefán segir jafnframt að mikil uppbygging hafi átt sér stað úti í Flatey á undanförnum árum og nefnir sem dæmi veislusal.
„Þessar Flateyjarferðir okkar hafa verið sérpantanir, alveg frá því að vera ein manneskja upp í mjög stóra hópa. Við vorum t.d. með kvennakór og Léttsveit Reykjavíkur í vor, það var yfir 90 manns. Þannig að við erum að fara með allar stærðir og gerðir af hópum. Nýja húsið okkar er einstaklega heppilegt fyrir starfsmannaferðir, afmæli og annað slíkt. Þannig að sumarið er búið að vera mjög gott hjá okkur, bæði í hvalaskoðun og svo Flateyjarferðunum. Og það er enn nóg eftir af tímabilinu,“ segir Stefán að lokum.