Fordómar eru stórt orð. Öll erum við haldin þeim að einhverju leyti þó fæst viljum við viðurkenna það. Ég hef reynt að uppræta mína og að einhverju leyti hefur mér tekist það en það er langt í land. Leið mín til upprætingar er að reyna að kynna mér málin betur.
Að kynnast fólki af ólíkum uppruna og átta mig á því að fólk er fólk óháð, litarhafti, trúarbrögðum og kynhneigð hefur fylgt mér frá því ég fór sem skiptinemi seinnihluta síðustu aldar. Það var því talsverð uppgötvun fyrir mig að átta mig á að ég var með fordóma gegn íbúðahverfinu Völlunum í Hafnarfirði.
Þegar yngsti sonur minn ákvað að flytja þangað, leist mér sannarlega ekkert á. Ég reyndi mitt besta til að telja hann ofan af því. ,,Það er alltof þétt á milli húsa, það eru bara blokkir þarna, leikskólarnir eru örugglega slæmir og grunnskólarnir með byrjendabrag og óstöðugleika, þetta er alltof langt í burtu og það kemur örugglega upp eldgos þarna o.s.frv.”
En ekki tók hann tillit til sinnar gőmlu fordómafullu mòður og flutti á Vellina.
Mikið sem ég er í dag þakklát fyrir það. Þetta hverfi er bara eitt af mínum uppáhalds, dásamlegir stígar um allt, berjamór við bæjardyrnar, leik-og grunnskólarnir svo langt sem ég fæ séð tækla sítt hlutverk og eru tilbúnir um leið og hverfin. Strætósamgöngurnar góðar og allar tegundir af húsum. Veit samt ekki hvernig fer með eldgosið! En best af öllu er Ásvallalaug, þvílíkt dásemdar mannvirki sem það er. Ásvallalaug gerir sundfélögum Hafnarfjarðar kleift að stunda æfingar og keppni við bestu aðstæður.
Til hamingju Hafnarfjarðarbær með þetta dásemdar hverfi!
Til hamingju ég sem er einum fordómi fátækari.
Dilla.