Lífið í Baugaseli

Baugasel.   Mynd úr einkasafni
Baugasel. Mynd úr einkasafni

Í Vikudegi 17. júlí sl. var sagt frá endurnýjun torfbæjarins Baugasels í Barkárdal. Þar hefur ferðafélagið Hörgur skilað afar góðu verki. Þó er það svo að ýmsar breytingar hafa verið gerðar á bænum frá því að búið var þar. Við systur bjuggum í Baugaseli fyrstu æviárin og teljum rétt og mikilvægt að gera grein fyrir bæjarmyndinni eins og hún var þegar Baugasel fór í eyði í júní 1965.

Séð yfir Baugasel að vetrarlagi Mynd  Hermann Þór Snorrason

Föðurafi okkar og amma, Friðfinnur Sigtryggsson og Una Zophoníasdóttir fluttu í Baugasel 1930 með fjóra syni sína, föður okkar elstan fæddan 1917. Í Baugaseli bættust þrír synir við.

Foreldrar okkar, Friðfinnur Friðfinnsson og Rannveig Ragnarsdóttir (frá Hallfríðarstaðakoti í Hörgárdal) hófu sinn búskap í Baugaseli 1953, en fluttu til Akureyrar í júní 1955. Eftir árs búsetu á Akureyri og árs búskap í Hólkoti í Hörgárdal fluttu þau aftur í Baugasel með börn sín, í byrjun sumars 1957.

Húsakostur í Baugaseli var þá þannig að þegar gengið var inn bæjargögnin var til hægri komið inn í eldhús og baðstofu. Inn af baðstofunni var svo Norðurstofa, sem var í senn stássstofa bæjarins og svefnherbergi ömmu og afa. Nú er búið að gera þetta að einu rými. Úr göngunum var farið til vinstri inn í búr. Innst úr göngunum var farið í hlóðareldhús og þaðan í fjósið, sem hýsti 5 – 6 mjólkandi kýr. Þessi hluti er nú að mestu hruninn og búið að setja glugga í enda gangnanna. Önnur hús voru svo fjárhús vestan við bæinn en tóftir þeirra standa enn. Fjárstofn þeirra feðga var um 270 kindur. Sunnan við bæjarlækinn var hesthús sem nú er nánast horfið. Ástæða þess að bærinn sjálfur var lengi vel í nokkuð góðu ástandi var að yngstu bræðurnir, Reynir og Ari, fóru ófáar ferðirnar fram eftir til að dytta að.

Friðfinnur Friðfinnsson. Hann ásamt konu sinni Rannveigu Ragnarsdóttur hófu búskap í Baugaseli árið 1953, þau bjuggu á Akureyri um eins árs skeið og Hólkoti í Hörgárdal áður en þau fluttu aftur í Baugasel með börn sín í sumarbyrjun 1957.     Mynd  Úr einkasafni

Eins og gefur að skilja var afar þröngt um fjölskyldurnar tvær í gamla bænum. Bræðurnir voru meira og minna heima en voru þó einnig í vinnu tímabundið fyrir marga bændur í sveitinni. Einnig kom fyrir að þeir réðu sig í vetrarvist, sem þá var kölluð. Fljótt eftir að fjölskylda okkar flutti í Baugasel hófs pabbi handa við að byggja litla viðbyggingu norðan við bæjardyrnar. Þangað fram flutti fjölskyldan 6. desember 1957 „...svo nú verður heldur rýmra um okkur“ skrifaði mamma í dagbókina. Hún skrifaði dag hvern í dagbók frá 14. maí 1955 þar til hún lést 6. maí 2018 og mikinn fróðleik er þar að finna m.a. um lífið í Baugaseli.

Baugasel var á þessum tíma eini bærinn í Barkárdal, en Féeggsstaðir fóru í eyði 1941. Árið 1935 til 1936 bjuggu foreldrar Unu ömmu á Féggsstöðum, þau Zophonías Sigurðsson og Helga Frímannsdóttir. Einangrun í Baugaseli var mikil, rúmir sjö kílómetrar til Þúfnavalla, sem var næsti bær, eftir að Féeggsstaðir fóru í eyði. Þá sést ekki til sólar í Baugaseli frá 4. október til 8. mars, þar sem bærinn stendur í þröngum dal milli hárra fjalla. Oft var sjóþungt yfir veturinn og innan við bæinn þrengist dalurinn með djúpum giljum sem oft voru erfið yfirferðar. Faðir okkar lenti í snjóflóði inná dal 8. desember 1960. Fréttamenn frá Morgunblaðinu komu af því tilefni í Baugasel og fréttir af atburðinum og lýsingar pabba má lesa í blaðinu frá 11. desember það ár. Við þetta tækifæri sagði afi við blaðamann að leitt væri til þess að vita, að líklega færi þessi góða jörð bráðum í eyði. Hann skýrði það með samgönguvandræðum, því þó að ekki væri langt á þjóðveginn í kílómetrum talið, þá væri vegurinn slæmur, aðeins fær jeppum og stundum ekki einu sinni traktor. Af orðum hans má ráða að fjölskyldunni leið þó vel þarna á þessum afskekkta stað.

Bræðurnir. Í efri röð eru Ingimar, Ari, Reynir og Jón Steinberg og í neðri röð Friðfinnur, Páll og Helgi Marinó.  Mynd  Úr einkasafni

Við krakkarnir þurftum að vera sjálfum okkur nóg því ekki var leikfélögum fyrir að fara. Leikföng þess tíma voru gjarnan leggjar- og kjálkabein úr sauðfénu, steinar og skeljar. Hvert okkar átti heimasmíðaðan dótakassa á stærð við skókassa og þar geymdum við þau fáu leikföng sem við áttum, við stelpurnar eina dúkku hver og svo kannski tvö önnur leikföng.

Yfir sumarið höfðum við það hlutverk að reka og sækja kýrnar milli mjalta. Á haustin þegar smalað var vorum við látin standa fyrir uppi í fjalli fyrir ofan bæinn.

Vorið 1965 ákváðu þeir feðgar að bregða búi og flytja til Akureyrar. 10. júní 1965 var haldið uppboð í Baugaseli „af ýmsu dóti af báðum búunum“, eins og mamma skrifar. Að sjá á eftir sveitungunum fara á brott með dótið okkar er sár mynd í barnsminninu. Fjölskylda okkar flutti svo alfarin frá Baugaseli 12. júní 1965 og afi og amma daginn eftir. Þá fór Baugasel í eyði eftir alda búsetu þar.

Við systkinin förum reglulega heim í Baugasel og rifjum upp minningar frá æskuárunum. Við teljum okkur lánsöm að hafa fengið að alast upp við aðstæður sem voru um svo margt ólíkar því sem jafnaldrar okkar þekkja.

Nýjast