Eyfirsk einmunatíð nýtist vel til skógarstarfa

Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga    Myndir SE
Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga Myndir SE

Tíðarfar undanfarið hefur nýst vel til framkvæmda á svæðum Skógræktarfélags Eyfirðinga og útlit fyrir að framhald verði á.

Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri SE segir að líta megi svo á að stígar séu „verðmæt tré í skógi“ en undanfarnar vikur hafa nokkrir slíkir nýir orðið til. Þá hafa verið plægðir niður niður rafkaplar og ljósastaurum komið fyrir. „Grisjun umhverfis eldri stíga er verkefni sem stöðugt þarf að sinna og við höfum jafnframt nýtt aðstæður til að grisja einstaka skógarreiti eins og Vaðlareit,“ segir hann en einmunatíð fylgir snjóleysi sem skíðagöngufólki þykir miður. „Kjarnaskógur var engu að síður fullur af fólki öll jólin, fólk kom til að njóta lognsins sem skógurinn skapar, viðra sjálft sig, hunda, börn, maka svo dæmi séu tekin.“

Halda til Finnlands og ræða við Múmínrétthafa

Ingóflur segir stóran hluta af starfsemi félagsins vera þjónustu við skógarnotendur og viðhald ýmis konar. Eitt þeirra verkefna sem unnið var að liðið ár var uppsetning á Ævintýraskógi á Kjarnavelli, en uppsetning Múmínkastalans á svæðinu olli nokkru fjarðrafoki, sem Ingólfur kýs að kalla storm í vatnsglasi.

„Við erum þakklát fyrir gott samstarf við við Múmínrétthafa í Finnlandi sem við ætlum að heimsækja nú í febrúar til skrafs og ráðgerða fyrir komandi sumar,“ segir hann og bætir við að það hafi verið skemmtilegt að Snorkstelpan hafi geta tekið þátt í jólaballi félagsins í desember. Stelpan sú var fjarlægð úr skóginum eftir að Kastalamálið komst í hámæli.

Snorkstelpan sem fjarlægð var úr Kjarnaskógi á liðnu sumri fékk bæjarleyfi á jólaball félagsins og getur hér eftir glatt gesti skógarins með viðveru sinni

Standsetning við Kjarnakot með áherslu á aðstöðu fyrir hjólreiðafólk var eitt af verkefnum sem félagið sinni. Þá var æfingjatækjum í Kjarna-Class fjölgað sem og bekkjum við gönguleiðir sem unnir eru úr heimafengnu timbri. Einnig var unnið í nágrannasveitarfélögum, nýtt bílastæði leit dagsljós við Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit, grillhús úr innlendum viðum reis á Svalbarðseyri, skógræktarskipulög voru gerð í Dalvíkurbyggð auk fleiri verkefna.

Áhersla á grisjun

Ingólfur segir að Skógræktarfélagið hafi staðið fyrir gróðursetningum í næstum hundrað ár, iðulega plantað í 2 til 3 hektara ár hvert. „Meiri áhersla er nú lögð á grisjun eldri skóglenda, þar þarf að ná í skottið á sér. Þar erum við að ná árangri og beitum til þess ásamt starfsfólki okkar verktökum með stórvirkar skógarhöggsvélar. Til að fjármagna grisjun þarf þó að vera til staðar möguleiki á afsetningu afurða. Lokun PCC á Bakka varð okkur því nokkuð áfall en þá kom sér vel að hafa byggt upp aðstöðu til timburvinnslu í Kjarna sem brúar bil þar til rofar til í stóriðju.»

Stjórn SE kemur saman nú síðar í janúar og leggur drög að félagsstarfsemi ársins. Í Kjarna verður auk annara verkefna unnið að áframhaldi Ævintýraskógarins þar sem leikmunir Múmínævintýrisins verða í forgrunni en sögupersónur annarra ævintýra bókmenntasögunnar, nýrra og gamalla, innlendra sem erlendra fá þar einnig athvarf.

Hánefsstaðareitur í Svarfaðardal á 80 ára afmæli á árinu, en þar hyggst félagið byggja nýtt grillhús og bæta aðstöðu til náttúruskoðunar út með firði „og ýmislegt annað verður brallað að venju,“ segir Ingólfur.

3-6% aukning í sölu undanfarin ár

Ein mikilvægasta tekjulind SE er sala á jólatrjám og segir hann að salan hafi gengið vel nú fyrir nýliðin jól. Fremst í flokki fer stafafura með 75% markaðshlutdeild.Salan hefur aukist um 3-6 % hvert undanfarið ár og munar þar mest um aukna sölu til fyrirtækja, stofanana og húsfélaga sem í vaxandi mæli fá fullskreytt jólatré til sín á aðventu sem síðan eru sótt og endurnýtt. Eins hefur verið aukin aðsókn fólk í heimsókn út í skóg að höggva sitt eigið jólatré.

Guðríður Gyða sem allt veit um sveppi, hefur selt jólatré á Þelamörk síðastliðin 25 ár. Hér er hún með lærlinginn Gunnar sem einnig er í stjórn SE . Sá veit sitthvað um jólatré en er hér að nema af reynsluboltanum.

„Vegna sjúkdómahættu bjóðum við ekki upp á innflutt jólatré en td skorpin og brún lauf birkitrjáa, af völdum skorkvikindanna birkiþélu og birkikembu eru dæmi sem flestir garðeigendur þekkja vel og eru tilkomin vegna slíks innflutnings. Við njótum hins vegar fulltingis 12 íslenskra jólatrjáabænda til að bjóða upp á þau umhverfisvænu úrvalstré sem Skógræktarfélagið býður upp á en nær ekki að skaffa sjálft.»

Nýjast