Ótrúlegt framhaldslíf olíutanks á Húsavík

Birkir er búinn að útbúa útsýnispall á tankinum og útsýnið er ekkert slor. Myndir/epe
Birkir er búinn að útbúa útsýnispall á tankinum og útsýnið er ekkert slor. Myndir/epe

Birkir Söebeck Viðarsson þúsundþjalasmiður hefur í sex ár rekið rafmagns og hjólaverkstæði á Höfða 2 á Húsavík eða frá því hann keypti húsið af Skeljungi þar sem áður hýsti m.a. annars Björgunarsveitina Garðar og Orkuveituna.

Húsið var í hálfgerðri niðurníðslu þegar Birkir flutti þar inn með sína starfsemi en hann er búinn af mikilli natni að endurbæta húsið og gott betur en það. Olíutankur sem er á lóðinni og fylgdi húsinu hefur Birkir klætt á listilegan hátt með timbri og búa til einstakan útsýnispall uppi á honum. Í gryfjunni undir tankinum kemur maður inn í merkilegt safn og ævintýraheim svo ekki sé minna sagt.

Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti Birki í byrjun vikunnar og fékk túr um þennan ótrúlega heim sem hann hefur skapað.

Keypti húsið undir hjóreiðaverkstæðið

Birkir bronco borð

Birkir er mikill völundur og sér nytjar úr úr hlutum sem aðrir líta á sem rusl. Hér lætur hann fara vel um sig í sófanum á kaffistofunni við sófaborð sem hann bjó til úr vél úr gömlum Bronco.

Birkir er rafvirki og tekur vel á móti blaðamanni sem lét óvænt sjá sig á verkstæðinu. Hann segir að rafmagnið sé hans aðalstarf en reiðhjólaverkstæðið sé svona aukabúgrein. „Það er reyndar búið að vera vitlaust að gera í því undanfarin ár,“ segir Birkir og bætir við að hann selji töluvert af rafmagnsfjallahjólum á ári hverju en algjör sprenging hefur orðið á rafhjólamarkaðnum undanfarin ár og hjólreiðamenning Húsavíkur verið í mikilli sókn. Verkstæði hans bera nafn staðarins þ.e. Höfðaraf og Höfðahjól ehf. en svo er þriðja Höfðanafnið á leiðinni. „Það er Höfðapool,“ segir Birkir leyndardómsfullur og hlær en það skýrist síðar í sögunni.

„Húsið keypti ég á sínum tíma til að sinna hjólunum. Þegar ég byrjaði í þessum viðgerðum var ég að þessu í kjallaranum hjá mömmu og heima hjá mér. Ég var að raða saman hjólum á pallinum hjá mér og sá strax að ég þyrfti að finna húsnæði undir þetta og lendingin varð þetta hús,“ útskýrir Birkir.

Vinnustaður eða hobbý?

bronco

Broncóinn er í sérstöku uppáhaldi hjá Birki.

Hjólreiðaverkstæðið er mjög snyrtilegt en það fer heldur ekkert á milli mála þegar maður lítur þarna í kringum sig að Birkir er búinn að gera vinnustaðinn sinn að áhugamáli og finna þar ýmsum hugðarefnum sínum stað. Hann vísar mér stoltur inn í skúr eða skemmu og þar blasir við glæsilegur Ford Bronco, en Birkir safnar bílum, bæði í fullri stærð og skrautbílum ýmiskonar.

„Þessi bíll er með sögu og kemur frá Laxmýri. Ég bara gat ekki sleppt honum þegar ég fékk tækifæri til að kaupa hann,“ segir Birkir og viðurkennir fúslega að hann sé mikill dellukall. „Ég er að taka bremsurnar í gegn á honum til að koma honum í gegnum skoðun svo ég geti farið að nota hann,“ segir Birkir enn fremur og aðspurður segir hann að áhugamálið snúi bæði að því að hann hafi gaman af því að eiga bílana og svo að dunda í því að gera þá upp.

Listasmíð í bakgarðinum

Birkir í gatinu

Flísin blasir við þegar dyrnar inn í dómuna undir olíutankinum eru opnaðar.

Næst er ferðinni heitið aftur fyrir hús en Birkir er búinn að gera lóðina mjög fína með pöllum og stígum sem liggja að olíutankinum fyrrnefnda sem nú er búið að timburklæða að utan og lítur afar vel út. Aðspurður segist Birkir hafa verið með það í huga að byrja með ferðamannagistingu í tankinum þegar búið væri að innrétta hann að innan og hafi verið búinn að sækja um flest leyfi og hanna vistarverurnar. „En ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá er ég ekkert viss um að mig langi til að fara út í þessa ferðaþjónustu, því þá hefði ég ekki sama friðinn til að vera hérna og sinna hugðarefnunum,“ segir Birkir og spyr á móti hvort ég kannist ekki við tröppurnar við innganginn inn í tankinn?

„Þetta eru gömlu kirkjutröppurnar sem voru við bakdyrnar á Húsavíkurkirkju áður en aðstaðan og inngangan þar var löguð,“ segir Birkir stoltur og það leynir sér ekki að hann er lunkinn í því að sjá not í hlutum sem aðrir myndu líklega henda.

Birkir og sportbíll

Birkir í yfirbyggðri gryfjunni með glæsilegan sportbíl frá áttunda áratug síðustu aldar í baksýn.

Eitt besta útsýni bæjarins

Utan um tankinn er búið að smíða stiga upp á topp og þar er útsýnið alveg einstakt, bæði inn að miðbænum og út á Skjálfandaflóa. „Mig langar til að girða lóðina betur af og jafnvel gera vegg svo maður sjái ekki iðnarsvæðið hér að ofan,“ segir Birkir áður en við klifrum niður af tankinum og niður í gryfju. Þar er búið að loka með þaki og gengur maður inn í hálgert neðanjarðarbyrgi ef svo má að orði komast. Bak við tankinn opnast stór bílskúrhurð inn í tankinn og við blasir merkilegt safn þar sem úir og grúir af allskyns merkilegum hlutum. Sportbílum í fullri stærð og safngripum ýmiskonar.

Karlahellir á öðru leveli

„Gatið inn í tankinn gerði ég í Covid,“ segir Birkir og viðurkennir að sá undarlegi tími hafi á margan hátt komið sér vel í uppbyggingunni. Inn í miðju dómunnar göngum við síðan inn í hringlaga rými sem líklega má helst lýsa sem hinum fullkomna karlahelli (e. mancave). Í miðju rýmisins er heljarinnar Billiard-borð og allt umhverfis er safn af smábílum, hjómflutningsgræjur af gamla skólanum og svo mætti lengi telja.

Skrautbílasafnið er veglegt og telur á fjórða hundruð bíla og maður myndi telja að þessu væri Birkir búinn að sanka að sér frá því í æsku, en nei. Þetta er svo að segja ný della hjá honum. „Ég hugsa að það séu svona tvö ár síðan ég byrjaði að safna þessu og hef sankað þessu að mér héðan og þaðan,“ útskýrir Birkir og segir frá því að hann hafi í gegnum þessa áráttu sína kynnst pólverja á Suðurnesjum sem býr til listaverk úr svona skrautbílum með því að láta þá líta úr fyrir að vera gamla. Birkir hefur þegar keypta af honum nokkra bíla og blaðamaður getur vottað að um sannkölluð listaverk er að ræða.

Krúnudjásnið í þessum karlahelli er samt án efa billiardborðið og segir Birkir að það hafi verið allt upp í 14 manns að spila þarna þegar best lætur. „Þetta er óneitanlega skemmtilegt rými og hér hafa verið góðir vinahittingar,“ segir Birkir og bætir við að næst á dagskrá sé að búa til líkamsræktarstöð til einkanota í gryfjunni.

Aðspurður hvort hann sé mikið að stunda ræktina, hristir Birkir höfuðið með glott á vör. „Nei ég hef nú aldrei komið nálægt slíku, en það er aldrei að vita nema maður fari að stunda líkamsrækt þegar maður er búinn að smíða sér fullkomna aðstöðu,“ segir hann og hlær.

„Annars á ég unglinga sem munu klárlega nota þessa aðstöðu enda verður þetta fyrstaflokks, ég gerir aldrei neitt nema gera það almennilega,“ segir Birkir að lokum.

Birkir hefur sankað að sér á fjórða hundrað skrautbílum á tveimur árum.

Kunningi Birkis á Suðurnesjum býr til þessa glæsilegu skrautbíla, eða öllu heldur gerir þá upp þannig að þeir virðast vera gamlir og veðraðir.

 

Nýjast