Vetrarstarfsemi STÚA starfsmannafélags Útgerðarfélags Akureyringa og Fjörfisks starfsmannafélags Samherja á Dalvík hófst um helgina með veglegum matarhátíðum.
Á Akureyri var haldið taílenskt matar- og menningarkvöld í matsal ÚA en þar starfa hátt í þrjátíu manns sem rekja uppruna sinn til Taílands.
Starfsmannafélag Samherja á Dalvík, Fjörfiskur, hélt árlegt villibráðarkvöld í matsal vinnsluhússins þar en þetta er í fimmta sinn sem Fjörfiskur efnir til slíkrar matarveislu á þessum árstíma.
Íslendingar kunna að meta taílenskan mat
Heiðursgestur STÚA var Þorsteinn Már Baldvinsson, sem nýverið lét af störfum sem forstjóri Samherja.
Supattra Singsuto var í undirbúningsnefnd en hún hefur starfað lengi hjá ÚA. Supattra segir að matar- og menningarkvöldi fylgi talsverður undirbúningur.
„ Við hjálpuðumst öll að við undirbúninginn, hver og einn hafði sitt hlutverk. Aðalréttirnir voru tíu taílenskir réttir auk meðlætis. Í eftirrétt voru svo nokkrir réttir, sömuleiðis frá okkar heimalandi. Íslendingar kunna greinilega vel að meta taílenskan mat, sem vissulega er yfirleitt meira kryddaður en sá íslenski og grænmeti er líka algengara. Síðan vorum við með sýnishorn af taílenskri menningu, dansa og fleira, sem er ómissandi þegar fólk kemur saman og skemmtir sér. Öll aðstaða í ÚA er frábær, þannig að þetta gekk allt saman vel og við þökkum öllum kærlega fyrir frábæra samveru,” segir Supattra Singsuto.
Margar hendur vinna létt verk
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks á Dalvík segir að villibráðakvöldið hafi verið sérlega glæsilegt í alla staði og vel sótt.
„ Sveinn Haraldsson hefur komið að matseldinni undanfarin ár og að þessu sinni var Sævar Freyr Ingason honum til halds og trausts. Björk Hólm var veislustjóri og stóð sig frábærlega, hún skellti sér svo í hlutverk D.J. og hélt uppi stuði eftir matinn. Fjölmargir koma að undirbúningi svona stórrar matarveislu og skemmtunar, svo sem að skreyta salinn, leggja á borð og ganga frá öllu í lokin, þannig að handtökin eru nokkur. Þetta villibráðarkvöld tókst frábærlega, maturinn sérlega góður og allir skemmtu sér konunglega. Ég sem formaður starfsmannafélagsins er afskaplega stolt og ánægð með alla þessa ríku samstöðu. Núna er vetrarstarfsemin sem sagt hafin og dagskráin í vetur er sem fyrr fjölbreytt og skemmtileg,“ segir Ragnheiður Rut.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir, sem tala sínu máli.
Það er samherji.is sem fyrst segir frá