Hluthafafundir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa samþykkt samrunaáætlun um sameiningu sjóðanna en hún tekur mið af stöðu þeirra í upphafi árs. Jafnframt hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans samþykkt samrunann.
Sameinað félag mun heita Smári sparisjóður hf. en hann mun markaðsetja sig áfram undir merkjum Sparisjóðanna.
Í beinu framhaldi af samrunanum verður hlutafé aukið til þess að styðja við vöxt sjóðsins en KEA hefur skuldbundið sig til þess leggja fram nýtt hlutafé samhliða stækkun sjóðsins á næstu misserum.
Fjárhagsstaða Smára sparisjóðs er mjög traust, sjóðurinn verður með hátt eiginfjárhlutfall og mjög sterka lausafjárstöðu og því tilbúinn fyrir vöxt. Starfsstöðvar verða eftir sem áður á Akureyri, Hólmavík og Grenivík. Jón Ingvi Árnason verður sparisjóðsstjóri og Þorbjörn Jónsson aðstoðarsparisjóðsstjóri.
Sjóðurinn mun leggja ríka áherslu á að þjónusta vel starfssvæði sín í Eyjafirði og á Ströndum. Í hönd fer samþætting sjóðanna á næstu mánuðum og verða viðskiptavinir upplýstir um framgang þeirra.
Nýja stjórn sjóðsins skipa Halldór Jóhannsson (formaður), Víðir Álfgeir Sigurðarson (varaformaður), Hildur Ösp Gylfadóttir, Björn Líndal Traustason og Jóhann Ingólfsson.