„Við fengum til okkar yfir 300 manns að klifra um helgina og annan eins fjölda sem kom að skoða aðstöðuna að Dalsbraut 1, Aðstaðan er vegleg og verður stór viðbót í afþreyingu bæjarins,“ segir Katrín Kristjánsdóttir einn eigenda. 600Klifur, ný klifuraðstaða á Akureyri var opnuð um liðna helgi. Aðstaðan er við Dalsbraut 1 þar sem í boði er glæsileg íþróttaaðstaða fyrir börn jafnt sem fullorðna þar sem bæði er hægt að æfa og skemmta sér. Salurinn hefur verið í smíðum síðan á liðnu ári.
Katrín segir að starfsemin fari vel af stað, fjöldi fólks kom á opnunardaginn en sumir hafi líka komið oft þannig greinilega hafa bæjarbúar tekið þessari nýjung mjög vel. Fólk var gríðarlega ánægt hérna og margir spenntir. Einhverjir nú þegar komnir í áskrift og sumir búnir að mæta nokkrum sinnum þannig að þetta byrjar vel.“
Hún bætir við að eigendur séu mjög þakklátir fyrir fólkið í kringum sig sem lagt hafi þeim lið og gert að verkum að hægt var að opna um liðna helgi. „Við hefðum ekki farið svona vel af stað um helgina ef ekki hefði verið fyrir vini, fjölskyldu og frábært klifursamfélag.“
Í húsnæðinu er á boðstólunum aðstaða fyrir grjótglímu, stór afmarkaður fjölskyldusalur, línuklifur með átta og tólf metra háum veggjum ásamt líkamsræktaraðstöðu og búningsklefum. Þar er einnig myndarleg kaffitería, þar sem hægt verður að setjast niður og fá sér kaffi og veitingar.
Nýtt viðmið sett með glæsilegum klifursal
Allir eru velkomnir að klifra og í aðstöðunni er ekkert aldurstakmark. Sérstakur fjölskyldusalur afmarkar aldurshópa, 11 ára og yngri geta nýtt þann sal, en fullorðnir geta nýtt báða klifursalina. Börn þurfa að vera í fylgd með fullorðnum og krakkar yfir 12 ára mega koma sjálfir en þurfa samþykki foreldra. Allur búnaður er til staðar og hægt að leigja, en klifurskór eru nauðsynlegir á klifurveggjum.
Nú í vikunni hófust námskeið og æfingar og einnig verður tekið á móti hópum, afmælum og fleiru slíku.
Allir finna eitthvað við sitt hæfi, krakkasvæðið mun án efa slá í gegn hjá yngsta aldurshópnum
Fjallafyrirtækið 600Norður stendur á bak við verkefnið en það hefur einsett sér 2017 að ýta undir vöxt fjallamenningar á Norðurlandi og Íslandi. „Það má segja að við höfum náð okkar markmiði með því að færa klifrurum landsins nýtt viðmið að evrópskri fyrirmynd,“ segir Katrín.