Vísindafólkið okkar - Fyrrum sauðfjárbóndi, verkefnastýra og doktor sem bakar ekki pönnukökur

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir
Hulda Sædís Bryngeirsdóttir

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólki Háskólans á Akureyri. Hulda Sædís, lektor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum er vísindamanneskja febrúarmánaðar. 

Áföllin og ávextirnir 

Hulda Sædís rannsakar eflingu og vöxt í kjölfar áfalla sem útleggst á ensku sem post-traumatic growth. Hugtakið felur í sér jákvæða, sálfræðilega breytingu hjá einstaklingi eftir mikla erfiðleika og áföll. Í því felst aukinn persónulegur styrkur, aukin ánægja í samböndum við annað fólk og jákvæð breyting á lífssýn þar sem viðkomandi kemur auga á nýja möguleika í lífinu. Þrátt fyrir að lífsreynslan sem um ræðir sé neikvæð í sjálfri sér, hefur hún þegar upp er staðið ákveðinn tilgang fyrir viðkomandi.Rannsóknir Huldu hafa snúið að eflingu og vexti meðal fólks sem hefur orðið fyrir mismunandi tegundum áfalla. Undanfarin ár hefur hún lagt áherslu á að rannsaka eflingu og vöxt meðal kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum. 

Hvað svo? 

„Ég valdi þetta rannsóknarefni því ég hef lengi unnið með fólki sem lent hefur í áföllum og ofbeldi. Ég veit að það hefur verið unnið ötullega að því að reyna að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og að styðja konur við að komast úr slíkum aðstæðum. Hins vegar hugsaði ég oft, hvað svo? Hvað tekur við eftir að ofbeldissambandi lýkur? Hvaða leiðir virka og hvernig er best að byggja upp áframhaldandi stuðning?“, segir Hulda Sædís um áhuga sinn á rannsóknarefninu.  

 „Í upphafi var ég ekki viss hvort við fengjum yfir höfuð þátttakendur þar sem það var alls ekki víst að konur sem höfðu orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi hefðu upplifað eflingu og vöxt í kjölfar þeirrar hræðilegu lífsreynslu sem ofbeldi í nánu sambandi er. Niðurstaðan var hins vegar sú að tuttugu og tvær konur sem höfðu náð að eflast og vaxa í kjölfar ofbeldis í nánu sambandi svöruðu auglýsingunni og vildu taka þátt“, bætir Hulda Sædís við.  

 Niðurstöður rannsóknarinnar fela meðal annars í sér lýsingu kvennanna á eflingu sinni og vexti, ásamt þeim þáttum sem reyndust þeim hjálplegir og þeim þáttum sem höfðu neikvæð áhrif á þá vegferð. Einnig sögðu þær frá því hvernig kveikjur og ýmsar aðrar neikvæðar langvarandi afleiðingar ofbeldisins fylgdu þeim áfram þrátt fyrir að hafa náð að eflast og vaxa og hvernig þær höfðu lært að takast á við þessar neikvæðu afleiðingar.  

 Aðlögunarhæf og hlustar á hjartað 

Hulda Sædís er fædd og uppalin á Akureyri en hefur búið víðsvegar, til dæmis í Reykjavík og á Héraði og var eitt ár í Þýskalandi að passa börn, læra þýsku og sletta úr klaufunum eins og hún lýsir því sjálf. „Ég hef gengið í marga skóla, bæði grunn- og framhaldsskóla. Eitt af mínum áhugamálum er að bæta við mig hagnýtri þekkingu. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá HA árið 1996 og síðan þá hef ég lokið námi í stjórnun, námi til kennsluréttinda, meistaraprófi og nú síðast doktorsprófi. Að ganga í þrjá grunnskóla þróaði ég að ég tel aðlögunarhæfni mína snemma sem er kannski ein af þeim ástæðum að í störfum mínum hef ég komið víðsvegar við,” segir Hulda Sædís aðspurð um uppruna og skólagöngu.  

„Ég vann við hjúkrun fyrstu árin eftir útskrift og hef alltaf gripið í hjúkrunarstarfið af og til. Ég starfaði lengi sem stjórnandi í málefnum fólks með fötlun, fólks með langvinna sjúkdóma og í öldrunarþjónustu. Í meistaranáminu rannsakaði ég eflingu og vöxt fólks sem hafði orðið fyrir mismunandi áföllum. Eftir það starfaði ég sem ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands, þar sem ég meðal annars leiddi endurhæfingarhóp fyrir konur sem beittar höfðu verið kynbundnu ofbeldi. Þar kviknaði sá áhugi sem varð til þess að efling og vöxtur meðal kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum varð viðfangsefni doktorsrannsóknar minnar. Í júní 2021 þegar ég var í miðju doktorsnáminu tók ég við starfi verkefnastýru áfangaheimilis Samtaka um kvennaathvarf sem var þá í byggingu í Reykjavík. Haustið 2022 hóf ég svo störf við HA  þar sem ég kenni í dag við Framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs, þ.e. í fagnámi sjúkraliða og í meistaranáminu þar sem ég  kenni um eigindlegar rannsóknaraðferðir. Einnig kenni ég aðeins í Hjúkrunarfræðideildinni,” bætir Hulda við. Huldu finnst loturnar skemmtilegastar og hún nýtur þess að kenna fólki sem eru virkir þátttakendur, koma vel undirbúin, eru dugleg að spyrja og ræða málin. 

 Forréttindin og framtíðin 

„Það eru forréttindi að hafa í gegnum fjölbreytt störf fengið að taka þátt í sorgum og sigrum fólks. Sú reynsla hefur hvatt mig til að fylgja hjartanu undanfarin ár og hefur í raun leitt mig á þann stað sem ég er á í dag,” segir Hulda Sædís og bætir við að hún virkilega brenni fyrir því að rannsaka leiðir til betra lífs fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

 „Mér finnst svo fallegt að fólk sé tilbúið til að opna sig um svo viðkvæm mál til þess að hjálpa öðrum. Þar á bakvið er svo mikill kærleikur, von og trú og svo mikil sannfæring um að allt eigi eftir að verða betra. Ég mun aldrei gleyma röddum þessa fólks.” 

Hulda Sædís telur að nýta megi rannsóknarniðurstöður ofangreindra rannsókna á ýmsan hátt í framtíðinni. Þær geta gefið þolendum von um betra líf, hugmyndir að leiðum til að eflast og vaxa, stuðlað að skilningi meðal þeirra nánustu á þörfum þeirra og þeim leiðum sem þær gætu farið til betra lífs. Þá geta niðurstöðurnar nýst fagfólki og þeim sérfræðingum og stjórnmálafólki sem vinnur að stefnumótun í viðkomandi málaflokki og innan velferðarkerfisins.  

 „Mig dreymir um að fá tækifæri til að miðla þekkingu um eflingu og vöxt í kjölfar áfalla og ofbeldis, bæði til þolenda, aðstandenda, almennings og fagfólks um eflingu og vöxt í kjölfar áfalla og er byrjuð að hanna slíkt námskeið. Hvort námskeið um eflingu og vöxt í kjölfar áfalla kemst á kortið og hvar það verður hýst á hins vegar eftir að koma í ljós. Áhugasamir mega gjarnan hafa samband við mig,” segir Hulda Sædís að lokum.  

 Vissir þú að: 

  • Ég var einu sinni sauðfjárbóndi  
  • Ég baka ekki pönnukökur því staflinn hækkar svo hægt…  
  • Ég ræð sudoku og krossgátur eða fer í sjósund ef ég vil slaka á 

Heilræði:   

Það er sagt í hinsta andvarpinu mætir þú sjálfum þér á Regnbogans stræti (Bubbi Morthens) 


Athugasemdir

Nýjast