Við áramót - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki

Vefurinn setti sig i samband við þá flokka sem eiga þingmenn i kjördæminu og bauð oddvitum þeirra að sem skrifa pistil til lesenda  við áramót. Eins og vera ber og til að gæta alls hlutleysis var dregið um röð flokka í sambandi við birtingu pistla. 

Það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sem á lokaorðin.

Við áramót

Nýja árið keisarans eða ný von?

 Við áramót er venjan sú að vera bjartsýnn. Annað þykir jafnvel óviðeigandi. Þótt vonin um betri framtíð sé góð verða henni að fylgja áform um að gera betur. Það á jafnt við um einstaklinga og samfélög. Á nýja árinu þurfum við að gera betur.

Byrjum á grunninum, grunnstoðum samfélagsins. Á árinu sem er að líða og allmörgum árum þar á undan hefur þeim ekki verið sinnt sem skyldi. Þetta á við flest af því sem skilað hefur Íslensku samfélagi mestum árangri.

Það á t.d. við um trúna á fullveldið, skilning á verðmætasköpun og mikilvægi ólíkra stétta og starfsgreina en einnig grundvallarreglur réttarríkisins á borð við „sakleysi uns sekt er sönnuð”, „jafnræði fyrir lögum” (sömu reglur skuli gilda um alla) og „skiljanleika laga” (allir geti skilið reglur samfélagsins). Ekki má heldur líta fram hjá mikilvægi þess að vernda sögu og menningu þjóðarinnar.

Jafnvel tungumálinu er nú fórnað í pólitískum tilgangi um leið og þrengt er að frelsi fólks til að tjá sig.

Á meðan viðhald grunnstoðanna er vanrækt, eða grafið undan stoðunum, færumst við í auknum mæli frá raunveruleikanum yfir í yfirborðsmennsku. Tengsl umbúða og innihalds eða orða og gjörða hafa sjaldan verið eins lítil.

Nýjum íbúðum fjölgar stöðugt á glærukynningum en ekki að sama skapi í raunheimum. Talað er um mikilvægi landbúnaðar á sama tíma og sótt er að greininni úr sífellt fleiri áttum. Lýst er áhyggjum af dýrtíðinni um leið og met eru slegin í ríkisútgjöldum og hvers konar skattar og gjöld eru hækkuð. Haldið er upp á fullveldi landsins og tungumálið um leið og hvort tveggja er skert, skref fyrir skref. Þannig mætti lengi telja.

Afleiðingin er sú að mistök eru áfram gerð löngu eftir að sannleikurinn má vera öllum ljós. Samheldni þjóðarinnar, hvar sem við búum á landinu, er vanrækt á meðan misnotkun hælisleitendakerfisins fær að viðgangast jafnvel eftir að ráðherrar hafa viðurkennt að málið sé stjórnlaust.

Ef við viljum ná árangri á nýja árinu þurfum við að endurheimta tengingu við raunveruleikann og horfast í augu við sannleikann.

Vandinn er mestur í hópi þeirra sem stjórna samfélaginu og leiða umræðuna. Almenn skynsemi virðist mun almennari meðal almennings en hinna.

Flestur kannast við dæmisögu H. C. Andersen um Nýju fötin keisarans og hápunkt sögunnar þegar saklaust barnið benti á það sem allir höfðu þó séð en ekki þorað að viðurkenna, að keisarinn væri klæðalaus.

Þó gleymist stundum hvernig sögunni lauk. Almenningur hvíslaðist fyrst á og sagði svo upphátt að keisarinn væri nakinn. Keisarann og hirðina grunaði að þetta væri líklega rétt. En hin fáránlega skrúðganga hafði gengið svo lengi að keisari og hirð töldu vænlegast að halda áfram að ganga fremur en að horfast í augu við sannleikann.

Látum það ekki verða örlög Íslands 2024. Þá getum við verið bjartsýn á nýja árið.


Athugasemdir

Nýjast