Stelluathöfn á Dvalarheimilinu Hlíð

Líkanið er glæsilegt   Myndir aðsendar
Líkanið er glæsilegt Myndir aðsendar

Stelluathöfn á Dvalarheimilinu Hlíð föstudaginn 19 janúar 2024.

Ágætu íbúar og starfsfólk Hlíðar.

Það er einkar ánægjulegt að fá þessa stund hér með ykkur og við, hópur sem köllumst fyrrum sjómenn Útgerðarfélags Akureyringa  erum hingað komnir nokkrir og komum hér með skip, já skip sem við sennilega öll sem hér erum þekkjum. Þetta skip sem er líkan er nefnilega eins og flest okkar hluti af sögu Akureyrar og þetta skip sem við köllum „Stellurnar“ voru og eru svo sannarlega stolt bæði ÚA og bæjarins okkar.

Aðeins af mér.

Mér er það einstakur heiður að fá að eiga þessa stund með ykkur hér einmitt á Hlíð því mér er þetta heimili einstaklega kært. Hér á Hlíð var ég skírður fyrir rétt rúmlega 60 árum síðan og allar götur síðan hef ég borið mikin hlýhug til þessa heimilis.

Enn aftur af skipunum.

Það var á vordögum í fyrra sem við nokkrir fyrrum sjómenn ÚA komum okkur saman um að kanna hvort það væri vilji og áhugi meðal okkar að láta smíða líkan af Stellunum svokölluðu. Stellurnar eru skírskotun í nöfn skipanna er um ræðir þegar þau voru keypt árið 1973 til ÚA frá Klakksvík í Færeyjum og hinga heim komin 1. nóvember 1973 fengu þau nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304.  Munið þið einhver hér eftir mótttökuathöfninni á Togarabryggjunni. ?

Að mati flestra sjómanna voru þetta glæsilegustu skuttogarar landsins og alla tíð reyndust þessi skip mikil happafley.

Hér á meðal okkar er m.a  skipstjórinn á Svalbak sem sótti skipið til Færeyja og var með það lengi, Halldór Hallgrímsson og það var einmitt hann ásamt Sigurlaugu Magnúsdóttur ekkju Áka Stefánssonar sem var skipstjóri á hinum togaranum, Sléttbak EA 304 sem afhjúpuðu líkanið fyrir okkur í mikilli 50 ára afmælisveislu sem við héldum í húsakynnum ÚA  þann 1. nóvember s.l.

Við Eyfirðingar búum svo vel að eiga aðgang að miklum listmanni, Elvari Þór Antonssyni á Dalvík sem tók að sér að smíða fyrir okkur líkanið og hann er hér meðal okkar,  og það get ég sagt og tala fyrir munni okkar allra  að betur er ekki hægt að gera og sumir hafa gengið svo langt að segja að það vanti ekkert á þetta skipslíkan  nema áhöfnina.

Enn  við fyrrum sjómenn ÚA tókum þá ákvörðun um daginn að bjóða ykkur kæru vinir að fóstra þetta fallega skip okkar tímabundið og það gerum við sjómenn í miklu þakklæti og virðingu ykkur til handa.

Þegar þessi skip komu hingað til Akureyrar árið 1973 voru þið sem hér búið á Hlíð í dag í mörg hver burðarstoðin í atvinnulífi Akureyrar og einmitt þess vegna kom þessi hugmynd upp að leyfa ykkur að njóta þessa skips með okkur.

Í tengslum við þessa líkanamíði gerðum við í samstarfi við Traustmynd  hér á Akureyri fallega  kvikmynd sem við erum að leggja lokahönd á og það er ætlun okkar fyrr enn seinna að koma með myndina hingað til ykkar og sýna hana hér á Hlíð.

Enn fremur langar okkur fyrrum sjómönnum að koma aftur til ykkar hér og segja ykkur sögur af þessum skipum, því  þetta voru  ekki bara falleg skip sem hér voru,  heldur er líka alveg ótrúleg saga sem fylgir þeim og veit ég að það verður gaman fyrir ykkur að fá að heyra hana.

Svo langar okkur líka að skreyta veggi Hlíðar með ljósmyndum af skipum sem við Akureyringar og Eyfirðingar höfum átt enn ljósmyndirnar eru í eigu Sjómannafélags Eyfirðinga.

ÚA var sannarlega óskabarn

Enn og aftur vil ég segja að þetta gerum við sjómenn ÚA með einlægu þakklæti og virðingu til ykkar allra, Það voru þið sem vörðuðuð veginn,  og það er ósk okkar að þessi heimsókn okkar hingað  með „Stelluna“ okkar verði bara upphafið að samvinnu okkar,  því við erum stórhuga gömlu sjómenn ÚA  og nú á allra næstu dögum mun Elvar Þór Antonsson ljúka við smíði annars líkans af  ÚA togara sem eins og Stellurnar mun bera tvö nöfn,  Kaldbakur EA 301 og Harðbakur EA 303,  skip sem ekki síður enn Stellurnar voru hér öflug til hráefnisöflunnar fyrir frystihús ÚA og þar með atvinnusköpunar fyrir okkur Akureyringa. ÚA var sannarlega óskabarn okkar Akureyringa og stolt.

Vonandi getum við sýnt ykkur það skip fyrr enn seinna og svo alveg í lokin vil ég segja ykkur að við ætlum við að biðja Elvar Þór að  smíða eitt líkan enn en það er einmitt af fyrsta skuttogara ÚA sem kom til  Akureyrar 8. febrúar 1972 og hét Sólbakur EA 5.

Varðveita merka sögu

Með þessu erum við að vernda mjög merka sögu útgerðar á Akureyri og það er eiginlega sérstakt að í þessum mikla útgerðarbæ sem Akureyri er og hefur verið um langa hríð, skuli ekki vera komið upp sjóminjasafn, svo merk er sagan og þegar skipssmíðasögunni er hér er og hefur verið, er bætt við er það áskorun hér með að það verði skoðað í þaula að setja svona safn á laggirnar.

Enn kæru vinir í dag skulum við njóta og það er einlæg von mín og okkar fyrrum sjómanna ÚA að þið kæru vinir eigið eftir að setjast við skipið og rifja upp sögu sem var.

Hér með afhendi ég fyrir hönd fyrrum sjómanna ÚA ykkur þetta glæsilega líkan til varðveislu og sýnins hér á Hlíð næstu mánuði og með þá von að þig kæru vinir njótið listaverksins.

 Sigfús Ólafur Helgason


Athugasemdir

Nýjast