Samfélag sem stendur saman

Benóný Valur Jakobsson skrifar

 

Í Norðurþingi höfum við alltaf vitað að styrkur samfélagsins felst ekki í byggingum heldur í fólkinu. Það sem gerir staðinn okkar lifandi eru tengslin, samkenndin og viljinn til að taka höndum saman þegar á reynir. Við notum orðið samfélag á hverjum degi: samfélag kennara, samfélag íþróttafólks, samfélag íbúa. En hvað felst í orðinu samfélag? Það er ekki bara að búa á sama stað. Samfélag verður ekki til nema við viljum bera ábyrgð hvert á öðru.

Í litlu sveitarfélagi eins og okkar sést þetta skýrar en víðast hvar annars staðar. Hér hittumst við í sundlauginni, á íþróttaleikjum, á foreldrafundum og í búðinni. Við vitum hverjir eru nýfluttir og hverjir eiga erfitt. Við vitum líka að þegar við stöndum saman getum við tekist á við stór verkefni hvort sem það snýst um að efla bæjarandann, halda betur utan um fólkið okkar eða skapa ný tækifæri í atvinnulífinu.

Samfélagið þarf á slíkri samstöðu að halda. En það þarf líka eitthvað frá okkur öllum. Það þarf að við látum okkur hvort annað varða. Að við mætum á opna fundi, tölum saman í stað þess að tala framhjá hvert öðru og að við tökum þátt í að móta framtíðina í stað þess að bíða eftir að einhver annar geri það. Samfélag er ekki þjónusta sem við þiggjum, það er samvinnuverkefni sem við eigum öll hlutdeild í.

Verkefnið er stórt og flókið en það léttist umtalsvert ef við leggjum okkar af mörkum. Við sem tilheyrum samfélaginu þurfum að koma með hugmyndir, sjá tækifæri þar sem aðrir sjá vandamál og þora að prófa nýjar leiðir. Samfélag sem vill vaxa þarf ekki bara samstöðu, heldur líka sköpunarkraft og hugrekki til að breyta hlutum til hins betra.

Við höfum séð hvað gerist þegar traustið rofnar, þegar umræðan verður beitt og fólki hættir til að sjá fyrst það sem skilur okkur að, í stað þess sem sameinar okkur. Þá gleymum við því að við eigum í raun sömu óskir: að börnin okkar fái tækifæri til að lifa hér góðu lífi, að atvinnulífið sé sterkt og að samfélagið okkar sé öruggt og lifandi.

Það er á þessum grunni sem framtíð Norðurþings byggist. Ef við getum hlustað hvert á annað, átt samtöl frekar en rifrildi og unnið sameiginlega að lausnum, þá getum við gert meira en að halda samfélaginu gangandi. Við getum gert það að fyrirmynd þess hvernig litlar byggðir víða um land geta blómstrað með samstöðu og virðingu að leiðarljósi.

Samfélag er ekki eitthvað sem við eigum, það er eitthvað sem við gerum, saman.

Höfundur er oddviti S-lista Samfylkingar og óháðra í Norðurþingi

Nýjast