Norðlensk hönnun og handverk stendur fyrir sýningu nú um komandi helgi, 25. - 26. október næstkomandi í Hlíðarbæ.
Þar koma hönnuðir víða að með vörur sínar til að kynna þær fyrir íbúum Norðurlands. Flestir þeirra sem taka þátt bjóða vörur sínar í vefverslun þannig að á sýningunni gefst kærkomið tækifæri á að skoða vörurnar, „og jafnvel að byrja jólainnkaupin snemma,“ segir í tilkynningu.
Margir sýnenda koma ár eftir ár og svo eru aðrir sem eru að koma í fyrsta skipti og því alltaf eitthvað nýtt að sjá. Vöruúrvalið á sýningunni um helgina hefur aldrei verið eins fjölbreytt en vörurnar eru handunnar af seljendum.
Alls taka um 25 hönnuðir þátt, hver með sinn bás, en m.a. eru í boði heimagerðar sápur, grafík, útskorin bein,vandaðar hönnunarflíkur bæði á fullorðna og börn, handgerð kerti, handlitaðar snyrtitöskur, kermik af ýmsu tagi, skartgripir, dagbækur og dagatöl auk þess sem ýmis konar matvæli eru í boði, allt frá sultum upp í kjöt. Kvenfélag Hörgdæla og Kvenfélag Svalbarðsstrandar sjá um veitingasölu í sælkerahorni.
Á sýningunni gefst kostur á á milliliðalausum viðskiptum beint frá hönnuðum, handverksfólki og sælkerameisturum segir í tilkynningu en einnig er bent á að viðburðurinn er kynntur á facebook síðunni Norðlensk hönnun og handverk .