Ófyrirsjáanleg framtíð ferðaþjónustunnar

Steingrímur Birgisson  Forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar
Steingrímur Birgisson Forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar

Stjórnvöld tala oft um mikilvægi fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi. Því miður stendur íslensk ferðaþjónusta frammi fyrir röð ákvarðana stjórnvalda sem ganga gegn þessari umræðu. Greinin stendur á krossgötum: annað hvort sækjum við fram, bætum gæði vöru og þjónustu, styrkjum upplifun gesta og afkomu greinarinnar – eða við förum leið aukinnar skattlagningar sem dregur úr umsvifum og skaðar íslenskt efnahagslíf. Sú leið virðist nú hafa verið valin og að sjálfsögðu fyrirvaralítið. Einnig má minna á að aukin skattprósenta skilar ekki alltaf auknum tekjum, það munu stjórnvöld því miður reka sig á.

Ferðaþjónustan – burðarás útflutnings og samfélags

Ferðaþjónustan er ein af lykilstoðum íslensks efnahagslífs. Samkvæmt skammtímahagvísum Hagstofu Íslands frá mars 2025 námu útflutningstekjur af ferðaþjónustu yfir 600 milljörðum króna, sem er um þriðjungur allra útflutningstekna landsins. Skattspor greinarinnar til hins opinbera var áætlað 155 milljarðar árið 2022 og talið að það sé nú farið að nálgast 200 milljarða.

Þetta sýnir svart á hvítu hversu mikilvæg greinin er fyrir samfélagið – og hversu varhugavert það er að ógna henni með vanhugsuðum, ófyrirsjáanlegum og íþyngjandi aðgerðum án nokkurs samtals.

Skattabreytingar sem ógna samkeppnishæfni

Nýjustu áform stjórnvalda fela í sér 66% hækkun vörugjalda á bifreiðar. Í dag skila þessi gjöld rúmum 10 milljörðum í ríkissjóð, en á næsta ári eiga þau að skila 17 milljörðum. Þessi breyting á að taka gildi innan örfárra mánaða – í nafni fyrirsjáanleika?

Við í bílaleigugeiranum höfum enn ekki fengið skýrar upplýsingar um hvernig þessar hækkanir verða útfærðar, en miðað við það sem liggur fyrir, þá mun meðalbíllinn okkar hækka um rúmlega 20%. Slíkar hækkanir, í bland við nýjan kílómetraskatt og sterka krónu, munu draga úr eftirspurn og gera Ísland óaðlaðandi í samanburði við önnur ferðamannalönd.

Við erum þegar farin að sjá samdrátt í bókunum inn á næstu mánuði. Þetta stafar meðal annars af sterkri krónu og veikingu dollars, evru og punds – krónan hefur styrkst um 13% gagnvart dollar og um 6% gagnvart evru og pundi frá fyrra ári. Þetta hefur bein áhrif á verðlag og samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.

Kílómetragjald og skortur á aðlögunartíma

Íslensk stjórnvöld hyggjast einnig innleiða kílómetragjald á alla bíla – fyrst allra þjóða. Þessi nýja gjaldtaka mun auka kostnað verulega og er kynnt með afar stuttum fyrirvara. Í samanburði má nefna að Holland og Sviss eru að skoða sambærilegt gjald, en horfa til ársins 2030. Það kallast fyrirsjáanleiki – nokkuð sem skortir verulega á hér á landi.

Við höfum þegar verðlagt þjónustu okkar fyrir næsta sumar og hafið sölu. Slíkar breytingar með skömmum fyrirvara valda miklum vandræðum og geta haft alvarleg áhrif á rekstur og traust viðskiptavina.

Landsbyggðin og árstíðasveiflur

Um 60% ferðamanna leigja bíl og ferðast um landið. Ef kostnaður eykst jafn mikið og útlit er fyrir þá minnkar eftirspurnin og mun færri ferðamenn leggja í hringferð og einblína frekar á suðvesturhornið. Þetta mun bitna mest á landsbyggðinni og auka árstíðasveiflur sem greinin hefur reynt að draga úr í áratugi. Við sjáum nú þegar fækkun ferðamanna á ákveðnum svæðum og yfir vetrartímann er staðan verri, eins og fram kom í viðtali við Pétur Óskarsson, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, í Bítinu á Bylgjunni.

Bílaleigur gegna lykilhlutverki í að dreifa álagi vegna ferðamanna um landið og tryggja að ferðaþjónustustaðir utan höfuðborgarsvæðisins fái sinn hlut. Því er mikilvægt að styðja við starfsemi þeirra – ekki grafa undan henni.

Rafbílar – vilji vs. veruleiki

Það virðist ljóst að markmiðið með þessum breytingum sé að þvinga bílaleigur til að kaupa rafbíla í auknum mæli, en eftirspurnin er einfaldlega ekki til staðar. Það er ekki skynsamlegt að birgja sig upp af bílum sem fáir vilja leigja, viðskiptavinirnir eru því miður ekki tilbúnir í rafbílana nema í mjög litlum mæli.

Bílaleiga Akureyrar – Europcar er stærsti rafbílaeigandi landsins. Hlutfall rafbíla í bílaflota okkar er 8,7%, samanborið við 1 til 7% í helstu samanburðarlöndum kollega okkar:

  • Bretland: 7%
  • Frakkland: 6%
  • Portúgal og Spánn: 3%
  • Írland: 1%
  • Ítalía: 3%
  • Þýskaland: 6,3%

 

Flest þessara landa eru að draga úr fjölda rafbíla í sínum flota vegna lítillar eftirspurnar. Europcar í Þýskalandi lýsir þessu vel: „Óvissa viðskiptavina varðandi almenna þekkingu á rafbílum, drægni og hleðsluinnviði, sem og veruleg rekstrarleg áskorun fyrir leigufyrirtæki, hægja á þróuninni.“

Ófyrirséðar áskoranir – og þær sem má forðast

Ferðaþjónustan þarf að takast á við margvíslegar áskoranir: eldgos, óbilgjarna veðráttu, verkföll, gengissveiflur, háa vexti og verðbólgu. Við þurfum ekki á fleiri hindrunum að halda – sérstaklega ekki þeim sem stjórnvöld geta auðveldlega forðast með samtali og skynsemi.

Við í ferðaþjónustunni höfum ítrekað bent á þessar hættur, en samtalið er nánast ekkert. Það er sorglegt. Stjórnvöld virðast þó vera að átta sig á áhrifum hás innviðagjalds á komur skemmtiferðaskipa – en því miður of seint.

Þetta eru að mínu mati arfavitlausar aðgerðir sem munu ekki auka tekjur ríkissjóðs. Þvert á móti draga þær úr útflutningstekjum ferðaþjónustunnar og þar með þeim tekjum sem hið opinbera hefur af henni. Það sem verra er, þær hafa verðbólguhvetjandi áhrif.

Nærtækara væri að nýta hluta af þessum tekjum í markaðssetningu á Íslandi, sem myndi skila sér í auknum komum ferðamanna og þar með auknum skatttekjum.

Að kunna að hlusta er kostur. Ef stjórnvöld vilja ekki hlusta á okkur þá er það þeirra val, en þá biðjum við um þá lágmarkskurteisi að okkur sé gefinn að minnsta kosti 12 mánaða aðlögunartími. Þannig getum við upplýst erlenda viðskiptavini okkar áður en þeir koma til landsins en ekki skellt þessu fyrirvaralaust framan í þá.

Steingrímur Birgisson
Forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar

 

 

Grein þessi birtist fyrst á mbl.is

Nýjast