„Ég var tilbúin að breyta til og takast á við ný verkefni“

Áslaug Ásgeirsdóttir  rektors Háskólans á Akureyri.   Myndir HA
Áslaug Ásgeirsdóttir rektors Háskólans á Akureyri. Myndir HA

Eftir þrjátíu ár í Bandaríkjunum ákvað Áslaug Ásgeirsdóttir að flytja heim til Íslands þar sem hún tók við embætti rektors Háskólans á Akureyri. Við settumst niður með henni til að ræða heimkomuna, nýtt hlutverk, leiðtogahlutverk kvenna í háskólasamfélaginu og framtíðarsýn HA.

Að koma heim eftir þrjátíu ár

„Það hefur verið mjög skemmtilegt verkefni,“ segir Áslaug um heimkomuna. „Það er náttúrulega átak að rífa sig upp eftir að hafa búið í öðru landi í þrjátíu ár og flytja heim, en ég var svo tilbúin að breyta til og takast á við ný verkefni.“

Ein af stærri áskorununum við að flytja að Áslaugar sögn var að fara úr 180 fermetra húsi í dásamlegt 65 fermetra leiguhúsnæði á Eyrinni. „En nú er ég komin í varanlegt húsnæði og hef komið mér vel fyrir,“ bætir hún við og brosir.

„Íslenskt þjóðfélag hefur breyst á 30 árum, en í grunninn erum við enn samfélag fólks og það er það sem skiptir mestu máli. Ég á stóran og góðan vinahóp á Íslandi og dásamlega fjölskyldu sem var svo glöð að ég flutti heim.

Fyrsta konan i embætti rektors HA

„Það er skemmtileg staðreynd, en ég hugsa ekki mikið um það dags daglega,“ segir Áslaug þegar hún er spurð út í það að vera fyrsta konan sem gegnir embætti rektors Háskólans á Akureyri. „Þegar ég tók við embætti voru nánast allir rektorar á Íslandi konur – og það hefur verið ómetanlegt að kynnast þeim. Þær eru allar miklir reynsluboltar og hafa reynst mér vel.“

Áslaug starfaði áður sem prófessor við Bates College í Maine í Bandaríkjunum, þar sem hún hafði gegnt ýmsum stjórnunarstöðum. „Ég var með marga hatta í mínum störfum í Bates College. Ég sinnti meðal annars starfi aðstoðarrektors í fimm ár þar sem ég var yfir sviðsforsetum og stýrði samstarfi 34 deildarforseta. Áður hafði ég verið deildarforseti tveggja mismunandi deilda og stýrði rannsóknarsjóði skólans. Eftir þá reynslu langaði mig að færa mig alfarið yfir í háskólastjórnun,“ útskýrir hún.

Þegar embætti rektors við Háskólann á Akureyri var svo auglýst sendi vinafólk hennar í bænum auglýsinguna og hvatti hana til að sækja um. „Eftir að hafa talað við nokkra aðila innan háskólans ákvað ég að slá til – og ég sé sko ekki eftir því.“

Nýtt samfélag og ný tengsl

Heimkoman til Akureyrar hefur verið ánægjuleg. „Mér fannst gaman að fatta að ég bý á stað þar sem ég get kynnt mig sem rektor HA – og það vita öll hver ég er,“ segir hún og hlær.

Það hafi auðveldað henni að kynnast fólki og Áslaug hefur náð góðu sambandi við stjórnmálafólk bæjarins og kjördæmisins. „Það er frábært að finna stuðning þeirra gagnvart háskólanum,“ útskýrir hún og bætir, „einna þakklátust er ég hversu vel starfsfólk háskólans hefur tekið mér og í raun allt samfélagið á Akureyri.“

Að þora að segja nei

Aðspurð hvaða skilaboð hún vilji koma á framfæri til kvenna sem stefna á leiðtogastöður í akademíu og samfélaginu í heild segir Áslaug: „Nýtið ykkur tækifærin sem bjóðast, leggið ykkur fram, lærið af verkefnunum og vitið hvenær það er komið gott,“ segir hún og bætir við, „og þorið líka að segja nei þegar tækifæri passa ekki við ykkar áherslur eða taka tíma frá því sem skiptir ykkur mestu máli.“

Kvennafrídagurinn, jafnrétti og fjölbreytni í háskólum

„Kvennafríið er mikilvægur dagur í íslenskri kvennasögu og vakti athygli á heimsvísu,“ segir Áslaug. „Það var byltingarkennd ákvörðun að leggja niður störf til að minna á mikilvægi kvenna og margvísleg störf þeirra innan og utan heimilis.“

Móðir Áslaugar fór sjálf á Austurvöll þann dag fyrir fimmtíu árum. „Ég á engar minningar frá deginum sjálfum en ég ber mikla virðingu fyrir þeim konum sem tóku þátt.“

Áslaug segir að Háskólinn á Akureyri standi sig vel í jafnréttismálum, þar sé virk jafnréttisáætlun í gangi studd af aðgerðaráætlun sem er í virkri eftirfylgni og öflugt jafnréttisráð. „Það má alltaf gera betur og það er okkar markmið, að styðjast við vel unna áætlun og taka frekari skref í átt að jafnrétti. Þá bæði hvað varðar kyn og aðra hópa sem þarf átak í að hafi raunverulegan aðgang að háskólamenntun. Það er í raun áskorun fyrir allt íslenskt háskólakerfi.“

Íslenskt og bandarískt háskólasamfélag

Áslaug segir að erfitt sé að bera saman bandarískt og íslenskt háskólasamfélag þar sem það bandaríska sé mun fjölbreyttara en það íslenska, sérstaklega þegar kemur að stærð, tegund náms, kostnaði við nám auk þess sem aðbúnaður starfsfólks og stúdenta sé ólíkur.

„Það er því erfitt að alhæfa um kerfið sem slíkt. Ef hægt er að alhæfa eitthvað, þá er yfirleitt meira val í grunnnámi en tíðkast hér, og hefur verið meiri áhersla á þverfagleika þannig að stúdentar útskrifast með breiðari þekkingargrunn en bara þá grein sem þeir völdu sem aðalgrein,“ útskýrir Áslaug.

Háskólinn á Akureyri – háskóli allra Íslendinga

„Við bjóðum upp á fjölbreytt nám sem einstaklingar geta stundað án þess að þurfa að flytja til Akureyrar eða Reykjavíkur. Námsfyrirkomulagið við HA hefur til dæmis skipt sköpum fyrir menntunarstig í lykilgreinum eins og kennslufræði og hjúkrun,“ segir Áslaug aðspurð að því hvað geri Háskólann á Akureyri einstakan.


„Áhersla okkar á öflugar staðlotur á Akureyri er líka einstök og tryggir að stúdentar kynnist bænum, hvert öðru, kennurunum sínum og öðru starfsfólki. Einnig erum við með frábært samfélag stúdenta sem búa á eða hafa flust til Akureyrar til að stunda nám og setja þeir mikinn svip á samfélagið hér,“ segir Áslaug og ítrekar jafnframt að Háskólinn á Akureyri sé mjög góður vinnustaður og góður námsstaður fyrir stúdenta hvort sem þeir eru í staðnámi eða fjarnámi. Að hennar mati eykur það einnig gæði íslenska háskólakerfisins. „Samkeppnin bætir námsleiðir og tryggir að stúdentar hafi val um skóla og áherslur.“

Áslaug segir að það sé mikið virði í því að háskólinn sé staðsettur á Akureyri. „Það þarf að vera mótvægi við Reykjavík. Það er mikilvægt að vel menntað fólk geti valið að búa annars staðar og að við byggjum upp sjálfstætt þekkingarsamfélag utan höfuðborgarinnar,“ segir Áslaug ákveðin.

Hraðaspurningar

  • Hvað einkennir lífið í HA?
    Það er að við erum háskóli allra Íslendinga. Það að fólk talar saman þvert á deildir. Þakklátir stúdentar og frábært starfsfólk!

  • Hvaða konur hafa verið þér fyrirmyndir í lífi og starfi?
    Mamma. Hún var – og er enn – svo langt á undan sinni samtíð. Hún er brautryðjandi arkitekt á Íslandi og hefur náð langt í starfi. Hún var í fyrstu kynslóð kvenna sem samþætti kröfuharða vinnu og uppeldi þriggja barna, þá í samfélagi sem studdi ekki vel við slíkt. Þegar hún var tæplega 38 ára gömul, þá varð hún ekkja og bar þá ein ábyrgð á heimilinu og því að koma okkur til fullorðinna ára. Eins og með arkitektúrinn, þá held ég að hún hafi staðið sig vel þar líka.

  • Ef þú gætir gefið ungu Áslaugu eitt ráð í dag – hvað væri það?
    Að skilja fyrr mikilvægi reglulegs sparnaðar og að það er mikilvægt að hreyfa sig reglulega.

  • Hvað veitir þér kraft og innblástur í daglegu lífi og starfi?
    Mér finnst gaman að vinna og það skiptir máli. Varðandi starfið þá er það að vilja efla HA til dáða og styrkja stöðu hans á meðal íslenskra háskóla. Í einkalífinu er ég heppin að eiga góða fjölskyldu og stóran vinahóp hér og erlendis. Svo finnst mér gott að fara í ræktina og vera úti í náttúrunni, en hef minni tíma fyrir það en æskilegt er.

Nýjast