Bakþankar bæjarfulltrúa Að skipta um skoðun
Hafið smá þolinmæði með mér. Mig langar til að byrja á lítilli sögu af þeim skáldbræðrum og vinum, skáldinu á Sandi, Guðmundi Friðjónssyni, og þjóðskáldinu, Matthíasi Jochumssyni. Eitt sinn sem oftar leit Guðmundur við hjá vini sínum á Sigurhæðum. Þeir höfðu um margt að spjalla, báðir skrafhreifnir og áhugasamir um menn og málefni. Loks kemur þó að kveðjustund og þar sem þeir eru komnir út á tröppu spyr Guðmundur skyndilega: „Geturðu sagt mér, Sigurhæðabúi, hvernig ég muni geta haldið mér andlega ungum til æviloka?“
Matthías svaraði samstundis: „Það get ég sagt þér, minn elskulegi, með því að skipta oft um skoðun.“