Framtíð íþróttavallarsvæðisins
Mikil gleði og ánægja ríkti fyrir réttum tuttugu árum þegar við Akureyringar héldum fjölmennasta íbúaþing sem sögur fara af hér á landi. Tíu af hundraði bæjarbúa voru heilan dag saman að ræða á hvað skyldi leggja áherslu við endurnýjun miðbæjarins. Niðurstöðurnar voru svo teknar saman og þær síðan lagðar til grundvallar tíu árum síðar þegar bæjarstjórn samþykkti samhljóða nýtt skipulag þessa hluta bæjarins. Því miður var niðurstöðunni gjörbreyt nokkrum árum síðar eftir óskiljanleg hrossakaup innan bæjarstjórnar þar sem öllum meginatriðum umrædds íbúaþings var hent í ruslakörfuna. Áður en það óláns niðurrif átti sér stað reyndum við mörg að fá umræðu um einstaka þætti þess og sjálfur tók ég fram nokkur atriði í athugasemdum sem ég óskaði eftir að ræða við bæjarfulltrúa áður en öllum meginniðurstöðum íbúaþingsins yrði kastað fyrir róða. Nei, því miður engin umræða, einasta einhverjar kúnstir innan bæjarstjórnar og óskapnaðurinn laminn í gegn án nokkurs samráðs við bæjarbúa. Eftir stendur skipulag sem enginn vill byggja eftir og miðbærinn í sama farinu og fyrir tuttugu árum; ekkert gert og algjör stöðnun.

