Ég vakna að morgni, tölti út og anda að mér fersku lofi froststillunnar, dreg inn orkuna sem liggur yfir öllu og glitrar á hélaðri jörð Eyjafjarðarsveitar.
Samfélagið hér býr yfir miklum krafti sem hefur í gegnum aldirnar byggst upp og mótast af frumkvöðlum bændastéttarinnar. Við sem hér búum í dag njótum góðs af ósérhlífinni vinnu fyrri kynslóða sem lagt hafa mikið af mörkum við að byggja upp sín heimili, sín bú og sína atvinnustarfsemi. Frjósöm jörðin hefur skapað eina allra gjöfulustu sveit landsins, þar sem umtalsvert magn allrar mjólkur í landinu er framleidd. Hér er líka ræktað korn, kartöflur og grænmeti, alin svín, naut, íslenskt sauðfé og veiddur fiskur. Hér er framleiddur ís og hér eru framleiddar sultur og egg, svo fátt eitt sé nefnt. Við getum verið stolt af því ríka hlutverki sem samfélagið gegnir í fæðuöryggi þjóðarinnar og sjálfbærni Íslands þegar að matvælum kemur.