Um áramót Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar
Vefurinn setti sig i samband við þá flokka sem eiga þingmenn i kjördæminu og bauð oddvitum þeirra að sem skrifa pistil til lesenda við áramót.
Eins og vera ber og til að gæta alls hlutleysis var dregið um röð flokka í sambandi við birtingu pistla. Númer tvö er Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum.
Árið í grófum dráttum
Það er gjarnan sagt á þessum árstíma að gott sé að horfa yfir árið og velta fyrir sér því sem á dagana hefur drifið. Í upphafi ársins fórum við hjónin í fyrsta sinn á skíði erlendis og varð Austurríki fyrir valinu hvar við lærðum á gönguskíði. Ekki í frásögur færandi komandi úr gönguskíðabænum Ólafsfirði. En bóndinn öllu betur að sér í íþróttinni en ég en þetta var afskaplega skemmtileg reynsla og ég lærði heil ósköp – meira að segja að detta með stæl.
En þingið hóf svo störf um miðjan janúar þar sem verkefnin voru margvísleg að vanda. Ég stýrði fjárlaganefnd og þar var stærsta verkefnið fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Ég á einnig sæti í atvinnuveganefnd og þar fylgdi ég eftir málum matvælaráðherra m.a. um rafvæðingu smábáta og orkuskipti er varða græn umskipti í sjávarútvegi.
Atvinnuveganefnd fór svo til Færeyja og Noregs þar sem nefndarmenn kynntu sér áskoranir frænda okkar í fiskeldi og svo jarðgangnamál þeirra Færeyinga. Gott veganesti í þá vinnu sem þegar er hafin hjá matvælaráðherra er varða fiskeldismálin. Þurfum hins vegar að gera enn betur þegar kemur að gangnamálum eins og við þekkjum of vel.
Milliliðalaust samtal
Í þriðju viku febrúar var svokölluð kjördæmavika þar sem þingmenn þeysast um sín kjördæmi og heimsækja fólk, fyrirtæki og stofnanir og taka stöðuna. Mér þykir fátt eins skemmtilegt og þessar vikur þar sem færi gefst á að heyra hvað brennur á fólki og líka hvað hefur gengið vel. Í október hefur sá háttur verið hafður á að allir þingmennirnir 10 í Norðausturkjördæmi fara saman og að þessu sinni hittum við sveitarstjórnir, heilbrigðisstofnanir, framhaldsskóla ásamt fleirum. Þetta hefur gefist einstaklega vel að mínu mati.
Vinstri græn héldu svo vel heppnaðan landsfund í mars í Hofi á Akureyri þar sem við þingmenn hreyfingarinnar vorum brýnd til áframhaldandi góðra verka á Alþingi. VG hélt líka afar fróðlega loftslagsráðstefnu í Grósku í mars þar sem fyrirlesarar komu víða við og var afar gagnlegt.
Við Jódís Skúladóttir, þingmenn VG í kjördæminu, sátum íbúaþing á Bakkafirði um brothættar byggðir og áttum þar gott samtal við fólkið á svæðinu um þær áskoranir sem byggðin býr við. Ánægjulegt er að verkefnið hefur verið framlengt um eitt ár enda full þörf á.
Við vorum líka viðstaddar hina ýmsu viðburði um allt kjördæmi í sumar ásamt því að sinna beiðnum um fundi og samtöl sem ekki vannst tími til að sinna s.l. vetur.
Tími til að hlaða
Inn á milli þingstarfa þá fór ég, ásamt manninum mínum, á fjallanámskeið í mars á Sauðárkróki til að læra að bera mig að í fjallgöngum við hinar ýmsu aðstæður. Eitthvað sem ég nýtti mér kannski of lítið í sumar en stefni á að nýta á komandi sumri.
Sumarið nýtti ég til að hlaupa upp um fjöll og firnindi ásamt manninum mínum um leið og við stóðum í ýmsu viðhaldi hér heima fyrir.
Í lok sumars fór svo þingflokkurinn í vinnuferð á Vestfirði og endaði í magnaðri gönguferð í Vatnsfjörð með góðri leiðsögn. Vikan sú endaði svo á flokksráðsfundi í Flókalundi þar sem undirbúningur fyrir þingstöf vetursins fóru fram.
Sumt er umdeildara en annað
Óhætt er að segja að ýmis umdeild mál hafi komið upp í pólitíkinni á árinu og má þar nefna fyrirhugaða sameiningu MA og VMA sem ég taldi óráðlega og ljóst varð í haust að þær fyrirætlanir verða sem betur fer ekki að veruleika. Nú standa yfir viðræður um sameiningu HA og Háskólans á Bifröst og eigum við eftir að sjá hverju fram vindur í þeim efnum.
Hvalveiðistoppið vakti miklar tilfinningar bæði hjá þeim sem eru með veiðum og á móti þeim. Einnig kynningin á niðurstöðu hópsins „Auðlindarinnar okkar“ og svo „slysa-sleppingar“ úr fiskeldinu. Margur strandveiðisjómaðurinn í NA-kjördæmi var ekki kátur þegar ekki var hægt að koma breyttu skipulagi veiðanna í gegnum atvinnuveganefnd. Allt eru þetta mál sem verða áfram til umræðu í vetur og koma væntanlega til atvinnuveganefndar til umfjöllunar í einni eða annarri mynd. Auk þess sem raforkumálin hafa verið og verða mikið til umfjöllunar og þingmál sem atvinnuveganefndin er að vinna með í þeim efnum.
Hin hörmulegu stríð
Ekki er hægt annað en að nefna hin ömurlegu stríð sem um heiminn geysa hvar Úkraína og Gaza hafa verið mest til umfjöllunar þrátt fyrir mikla eymd t.d í Súdan og Eþíópíu. Ég hef fullan skilning á því að sumum finnst alls ekki nóg að gert af hálfu stjórnvalda þess bera fjölda tölvupóstar og símtöl merki um. En íslensk stjórnvöld hafa lagt sig fram um að gera það sem hægt er til að veita liðsinni og munu halda því áfram.
Nýtt hlutverk og annarskonar verkefni
Í haust tók ég við nýju hlutverki sem formaður velferðarnefndar og sagði þar með skilið við fjárlaganefnd sem ég hef átt sæti í s.l. 10 ár. Verkefnin þar eru margvísleg og koma aðallega frá heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Ég var strax á fyrstu dögum mínum sem formaður beðin um að hitta dönsku velferðarnefndina þar sem þau vildu m.a. ræða árangur okkar í forvarnarstarfi með ungu fólki og áfengisneyslu. Þar horfa þau líka til samstarfs okkar í verkefninu Planet Youth sem ég hvet fólk til að kynna sér.
Ég sat einnig þing hjá Landssambandi eldri borgara á Hilton og var svo málþing hjá Landsspítalanum þar sem ég var í pallborði og rætt var um heilbrigðisstefnuna, tækifæri og framtíðarhorfur í heilbrigðismálum.
Ég hlakka til nýs árs og set mér ævinlega áskoranatengd markmið og að þessu sinni verða þau aðallega tengd margskonar hreyfingu og að njóta meiri samveru með mínum nánustu og búa til góðar minningar. En í pólitíkinni er framundan vetur margra umdeildra mála sem ég hlakka til að takast á við enda bjartsýn kona sem vil leita lausna á sérhverju viðfangsefni.
Um leið og ég þakka fyrir góðan stuðning á árinu sem er að líða vona ég að þið eigið öll í vændum friðsælt og kærleiksríkt ár.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi
Athugasemdir