Varaflugvallagjaldið og uppbygging flugvallakerfisins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar

Í lok  nóvember 2018 skilaði starfshópur sem ég veitti formennsku af sér skýrslu undir heitinu Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins. Í starfshópnum sátu einnig Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Fyrir starfshópnum lágu tvö stór úrlausnarefni. Hið fyrra fjallaði um bætt aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar með þeim hætti að innanlandsflugið standi undir nafni sem almenningssamgöngur. Í almennri umræðu hefur verið talað um skosku leiðina í þessu sambandi, í dag betur þekkt sem loftbrúin. Loftbrúnni var hleypt af stokkunum haustið 2020 og hefur verið mikil ánægja með verkefnið og stöðugt verið unnið að því að bæta úr þeim vanköntum sem hafa komið upp.

Síðari úrlausnarefnið fjallaði um það hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins. Það kemur til af því að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af í maí 2011 en við það hrundi tekjustofn til nýframkvæmda og viðhalds á flugvöllum landsins. Fjármagnið sem varið var til flugvalla landsins lækkaði að meðaltali úr 1.400 milljónum í 350 milljónir á verðlagi ársins 2017.

Það hefur verið ljóst um árabil að niðurlagning gamla varaflugvallagjaldsins í maí 2011 var mikið óheillaskref fyrir íslenska flugvallakerfið. Varúðarorð þeirra sem best þekktu til voru höfð að engu. Fjármögnun kerfisins hefur verið í miklum ólestri í rúman áratug, frá því að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af. Á sama tíma hefur millilandaflug til og frá Íslandi margfaldast á þessum árum frá 2011. Varúðarorð þeirra sem best þekktu til voru höfð að engu við þær ákvarðanir sem leiddu til þess að þáverandi varaflugvallagjald var. Markmið nýs varaflugvallagjalds er til að bæta úr þessari stöðu. Hér er rétt að benda á að það varaflugvallagjald sem nú er lagt til er margfalt lægra en gamla varaflugvallagjaldið á hvern flugfarþega.

Varaflugvallagjaldið og flugöryggi

Í síðustu viku mælti innviðaráðherra fyrir frumvarpi um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónusta við flugumferð þar sem lagt er til að 200 kr. varaflugvallagjald sé lagt á flugmiða fyrir hvern fluglegg. Miðað við gefnar forsendur má reikna með að gjaldið skili um  1,5 milljarð króna á ári.   Með frumvarpinu er lagt til að sérstakt gjald skuli innheimt til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu varaflugvalla. Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins  að nauðsynlegt sé með tilliti til flugöryggis að starfræktir séu fleiri flugvellir sem hafa burði til að taka á móti nokkrum fjölda loftfara þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík. Nú kemur frumvarpið til kasta Alþingis og mikilvægt að þingið klári afgreiðslu málsins fyrir þinglok.  Varaflugvallagjaldið snýst fyrst og fremst um að tryggja flugöryggi.

Njáll Trausti Friðbertsson,

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

 


Athugasemdir

Nýjast