Nú þegar haustið færist yfir fer skólastarf að hefjast að nýju í grunnskólum Akureyrarbæjar. Samkvæmt upplýsingum frá skóladeild bæjarins er gert ráð fyrir að um 2.500 nemendur sæki grunnskóla í vetur. Þar af eru 212 börn skráð í 1. bekk, og hefja þar með sína grunnskólagöngu.
Lundarskóli er fjölmennasti grunnskóli bæjarins með um 490 nemendur, en sá fámennasti er Hríseyjarskóli með 15 nemendur.
Að venju útvegar Akureyrarbær öllum nemendum ritföng og önnur námsgögn. Foreldrum er því einungis ætlað að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, auk íþrótta- og sundfatnaði. Þá býðst öllum grunnskólanemendum að fá heitan hádegismat í mötuneytum skólanna, án þess að greiða fyrir.
Akureyrarbær býður upp á frístundastyrk fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Hægt er að nýta styrkinn til að koma til móts við kostnað í ýmsu íþrótta- og tómstundastarfi.
Frístund er í boði í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar fyrir börn frá 1. – 4. bekk eftir skólatíma, til kl. 16:15. Skráning fer fram í gegnum Völu frístund.
Loks má nefna að öll börn og foreldrar hafa rétt á tengilið sem sinnir þjónustu í þágu farsældar barnsins, ef þess er óskað. Markmiðið er að tryggja velferð og stuðning þegar þörf er á, í nánu samstarfi við fjölskyldur og skóla.
Nánari upplýsingar um skipulag og tímasetningar skólanna er að finna á heimasíðu hvers grunnskóla. Þar er einnig að finna skóladagatal skólaársins en það er gagnlegt plagg þar sem hægt er að sjá tímasetningar ýmissa viðburða í skólanum, skipulagsdaga, viðtalsdaga og frídaga.
Hér eru nánari upplýsingar um grunnskólana.