Listasafnið á Akureyri: Almenn leiðsögn og fjölskylduleiðsögn um helgina

Laugardaginn 23. ágúst kl. 15 verður boðið upp á almenna leiðsögn um sýningu Margrétar Jónsdóttur, K…
Laugardaginn 23. ágúst kl. 15 verður boðið upp á almenna leiðsögn um sýningu Margrétar Jónsdóttur, Kimarek-Keramik, og samsýningu norðlenskra listamanna, Mitt rými.

Laugardaginn 23. ágúst kl. 15 verður boðið upp á almenna leiðsögn um sýningu Margrétar Jónsdóttur, Kimarek-Keramik, og samsýningu norðlenskra listamanna, Mitt rými. Jafnframt verður fjölskylduleiðsögn í boði um sýningarnar daginn eftir, sunnudaginn 24. ágúst, kl. 11. Aðgangur að fjölskylduleiðsögninni er ókeypis í boði Norðurorku og að henni lokinni er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýninganna. En aðgangur að almennu leiðsögninni er innifalinn í aðgöngumiða á safnið.

Viðfangsefni Margrétar Jónsdóttur hafa verið margvísleg í gegnum tíðina og hún unnið jöfnum höndum að gerð nytjalistar, stærri listmuna og listskreytinga. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.

Margrét Jónsdóttir

Í tilefni af 40 ára starfsferli Margrétar var óskað eftir samstarfi við almenning um lán á munum fyrir yfirlitssýningu. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og munirnir, sem fundnir voru í krókum og kimum, mynda eina veglega innsetningu er spannar tímabilið frá upphafi ferils hennar til dagsins í dag. Ein heild – eitt lífsverk.

Margrét Jónsdóttir er fædd á Akureyri 1961. Hún fór ung til Danmerkur og nam leirlist í listiðnaðarskólanum í Kolding, en snéri heim að námi loknu 1985 og stofnaði sitt eigið leirverkstæði í bílskúrnum hjá ömmu sinni. Í rúm 20 ár hefur hún haft vinnustofu í Gránufélagsgötu 48 á Akureyri, þar sem hún vinnur að list sinni og selur eigin verk.

Samsýningunni Mitt rými er ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru myndlistar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna og myndlistar. Frá 2015 hefur annað hvert ár verið sett upp sýning á verkum norðlenskra myndlistarmanna í Listasafninu, þar sem sérstök nefnd velur úr innsendum verkum.

Í heimi sem einkennist af átökum, umhverfisvá og sviptingum í alþjóðastjórnmálum hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að finna sér rými til íhugunar og sjálfskoðunar. Að finna sér „mitt rými“ er ekki flótti frá raunveruleikanum, heldur hlé sem veitir tækifæri til að hugsa, anda og vera.

Á þessum umbrotatímum bjóða sautján norðlenskir listamenn okkur að skyggnast inn í rými sem þau hafa skapað og dvalið í, hvort sem þau eru efnisleg, huglæg eða mótuð í samtali listamanns og miðilsins. Sýningin er ekki fullmótað yfirlit, heldur fjölradda augnablik þar sem ólík sjónarhorn, miðlar og efni mætast og deila sameiginlegu rými.

Nýjast