Landvinnsla Samherja á Dalvík komin á fullt skrið eftir sumarleyfi

Dalvík í morgun: Anna Maria Graczyk, Jón Sæmundsson, Nicola Johanna Michalak / myndir samherji.is
Dalvík í morgun: Anna Maria Graczyk, Jón Sæmundsson, Nicola Johanna Michalak / myndir samherji.is

Vinnsla hófst í morgun af fullum krafti í fiskvinnslu Samherja á Dalvík eftir sumarleyfi starfsfólks en vinnsla hjá ÚA á Akureyri hófst í júlí eftir sumarleyfi. Jón Sæmundsson framleiðslustjóri á Dalvík hafði í nógu að snúast á þessum fyrsta degi.

Ýsa unnin fyrstu dagana

„Þar sem starsfólkið á Akureyri og Dalvík fer ekki í sumarfrí á sama tíma getum við haldið uppi góðri þjónustu við erlenda kaupendur afurða, enda kappkostum við að sjá viðskipavinum okkar fyrir fiski allan ársins hring. Togararnir Björgúlfur og Harðbakur lönduðu ýsu í gær og við eigum hráefni til vinnslu í dag og á morgun. Næsti togari kemur svo væntanlega til löndunar fyrir mánudaginn, við getum því sagt allt sé komið á fullt skrið frá og með deginum í dag og það er bara frábært.“

Sumarstoppið notað til að yfirfara búnað

Jón segir tímann gjarnan notaðan til að endurbæta og fara yfir ýmsan búnað.

„Já, já, það er nauðsynlegt enda er búnaðurinn hérna um margt sérhæfður. Þær endurbætur og uppfærslur sem ráðist er í kalla á töluverðan undirbúning og þá er gott að hafa þessar vikur til afnota í þeim efnum. Við sem sagt skellum ekki alveg í lás þessar vikur.“

Sumarið gert upp í matar- og kaffitímum

Jón segir greinilegt að fagnaðarfundir hafi verið hjá mörgun er starfsfólkið hittist á nýjan leik í morgun eftir sumarfrí. „ Hérna þekkja svo að segja allir alla og þá myndast gjarnan vinátta eða kunningsskapur. Það voru þess vegna fagnaðarfundir hjá mörgun í morgun, eftir að hafa ekki sést í nokkrar vikur. Ég vona að fólk hafi almennt náð að hlaða batteríin, notið sumarsins og ég er ekki frá því að mikið verði talað um sumarið í matar- og kaffitímum. Þetta árið er varla hægt að kvarta undan veðrinu hérna norðanlands. Ég heyri ekki annað á starfsfólkinu en að það mæti eldsprækt til starfa og það er frábær tilfinning,“ segir Jón Sæmundsson.

 

Vinnsla Samherja á Dalvík


Nýjast