Beint frá býli dagurinn verður á Völlum

Beint frá býli dagurinn verður að þessu sinni á Völlum í Svarfaðardal næstkomandi sunnudag.  Myndir …
Beint frá býli dagurinn verður að þessu sinni á Völlum í Svarfaðardal næstkomandi sunnudag. Myndir aðsendar

Beint frá býli dagurinn verður haldinn næstkomandi sunnudag, 24. ágúst. Þetta er í þriðja sinn sem efnt er til dagsins, en viðburðurinn hefur á skömmum tíma fest sig í sessi sem fjölskylduvænn hátíðisdagur í íslenskri sveit. Markmiðið er að vekja athygli á hugmyndafræði beint frá býli, efla tengsl milli framleiðenda og neytenda og hvetja fleiri til að hasla sér völl á sviði smáframleiðslu matvæla.

Í hverjum landshluta er opið býli þar sem gestum býðst að kynna sér fjölbreytta heimavinnslu. Að þessu sinni verður Beint frá býli dagur haldinn á Völlum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð og er opið frá kl. 13 til 16. Auk þess sem framleiðsla búsins á Völlum er í boði mæta þangað einnig aðrir smáframleiðendur á svæðinu og gefst gestum færi á að kynnast vörum þeirra og kaupa þær milliliðalaust, en um leið styrkja þeir íslenska matarmenningu og samfélög landsins.

Fjölbreyttur varningur til sölu

„Við eigum von á að dagurinn verður líflegur og skemmtilegur,“ segir Bjarni Óskarsson sem ásamt eiginkonu sinni Hrafnhildi Ingimarsdóttur rekur lifandibúskap og ræktun á jörðinni. Þar er hin vinsæla Sveitabúð sem laðar að sér fjölmarga viðskiptavini yfir sumarið.

Bjarni segir að kirkjan að Völlum verður opin og gestum gefst því gott tækifæri til að skoða hana. Vígt vatn verður í boði og kvenfélagið í sveitinni stendur fyrir kökubasar. Allar þær vörur sem framleiddar eru að Völlum, ostar og sultur sem dæmi verða til sölu og einnig má finna nýuppteknar kartöflur og grænmeti og Bjarni segir að enn sé eitthvað til af berjum úr eigin framleiðslu. Þá eru aðalbláberin komin og rjúka út.

„Beint frá býli dagurinn hefur verið vel sóttur tvö undanfarin ár og við eigum því von á að margir leggi leið sína til okkar,“ segir Barni.

Að deginum standa Samtök smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli. Félögin sameinuðu krafta sína árið 2022.

Gestum á Völlum gefst kostur á að renna niður vígðu vatni.

 

Nýjast