Talið í iðnbyltingum

Egill P. Egilsson skrifar


 

„Like´in“ tifa hratt um háða sveina, lítið sjálfstraust grær við skriðufót. Sjálfsmynd liggur brotin milli síðna, á skjánum skelfur íturvaxin snót.

eipi á djúpa

Það eru varla ýkjur að tækniþróun hefur verið hröð á síðustu árum og áratugum, sérstaklega á sviði upplýsingatækni. Svo ör er þróunin að hún er mæld í iðnbyltingum, þær eru nú komnar upp fjórar eða fimm svei mér þá.

Samfélagsmiðlar hafa náð trausta taki á daglegu lífi fólks og jafnvel tekið almenna umræðu í gíslingu.

 Upplýsingaóreiða og Þórðargleði

Aðgengi að upplýsingum hefur margfaldast svo mikið að það er farið að vinna gegn tilgangi sínum. Uppýsingaóreiða er þetta víst kallað. Svo dæla fjölmiðlar orðið svo miklu efni á vefi sína að það sem teljast má mikilvægt fyrir lýðræðislega umræðu drukknar í suði.

Suði um sambönd og sambandsslit fræga fólksins sem engin þekkir þó, Hver var hvar eða ekki hvar og um skandala. það þarf jú að selja auglýsingar með smellum og þá virkar slúðrið best. Okkur þyrstir öll í góðan skandal og þráum fátt heitar en góða þórðargleði.

 Sjálfhverfa á samfélagsmiðlum

Samfélagsmiðlar ollu vissulega byltingu í samskiptum fólks heimshorna á milli. Þeir lofuðu bjartri framtíð upplýsinga og gagnsæis. En hvernig notum við þessi verkfæri? Jú, með því að draga upp sjálfhverfa glansmynd af sjálfum okkur og daglegu lífi; þar sem brjóstaskorur og sílíkonrassar eru gjarna í aðalhlutverki. Þá eru samfélagsmiðlarbeint eða óbeint búnar að taka við sem uppalendur yngstu kyndlóða okkar.

Þetta dásamlega gagnsæi "like" miðlanna hefur líka rennt stoðum undir falsfréttir, eitt mest notaða orð síðustu ára. Og á sama tíma má segja að við séum í vinnu hjá samfélagsmiðlarisunum (reyndar launalaust) við að selja auglýsingar með persónuupplýsingum okkar. Eftir sitjum við með kvíða yfir óraunhæfum væntingum sem glansmyndirnar setja okkur. Að vísu hækka hlutabréf lyfjarisana á meðan. Kvíðalyfin seljast víst í bílförmum.

Nú er gervigreindin að ryðja sér til rúms, eflaust enn ein iðnbyltingin sem mun þurrka út störf en skaða skapa önnur. Og hvað erum við almenningur að gera við þetta? Jú við látum gervigreindina búa til fantasíu- og skrípamyndir af sjálfum okkur til að deila á samfélagsmiðlum. Við erum jú ofurseld dópamín skammtinum sem „like-ið“ gefur okkur.

Sumt hreyfist hægt

Já, þetta eru skrítnir tímar þar sem hraði samfélagsins er vinsælt umkvörtunarefni. Það er þó ekki þessi sami hraði á öllu. Kerfin sem við höfum búið okkur til eru skrímsli sem varla hreyfast úr stað. Menntakerfið, stjórnsýslan, jafnvel dómskerfið, þessi kerfi hafa fengið að staðna svo mikið að húsin sem hýsa þau eru farin að mygla. Það eina sem þróast hratt á þessum bænum er hugtakasmíðin. Það þar að þarfagreina allt í dag, setja í samráðsgátt, kynna ólíkar sviðsmyndir og guð má vita hvað.

Kannski er það ekki hraði samfélagsins sem er að buga okkur eftir allt saman og keyra okkur í kulnun. Er það mögulega allt kjaftæðið sem við búum við?


Athugasemdir

Nýjast