18 - 25 september - Tbl 38
Þankar gamals Eyrarpúka
Sjálfsbjargarviðleitni var í hávegum höfð hjá okkur strákunum á Eyrinni um miðja síðustu öld. Við biðum ekki eftir því að bálkestir yrðu hlaðnir fyrir gamlárskvöld heldur hlóðum þá sjálfir, við biðum ekki eftir að fá vopn og verjur að gjöf heldur smíðuðum þau sjálfir og við biðum heldur ekki eftir að bærinn opnaði fótboltavelli handa okkur en gerðum þá sjálfir.
Nyrst á sléttri grasflötinni fyrir neðan Ægisgötuna tókum við blett traustataki fyrir fótboltavöll. Ekki þótti ástæða til að spyrja nokkurn í bæjarkerfinu um slíkt landnám og sluppum þess vegna við að bíða eftir svari og gátum þegar hafist handa. Fórum umsvifalaust í hjallana og fundum álitlega staura sem við drógum á fyrirheitna fótboltasvæðið. Þar voru þeir sagaðir niður í nokkra búta eftir vísindalegum útreikningum. Óðar var fyrra markið byggt upp með netum sem fengust með „hirðusemi” við nótagerðarhúsið. Síðara markið var nokkru ofar á svæðinu. Þá var ekki annað eftir en að merkja völlinn með salti úr saltfiskvinnslunni rétt fyrir neðan. Og sjá: Þarna var kominn fínasti fótboltavöllur með tveimur mörkum sem var í notkun alla daga frá morgni til kvölds því strákar komu, fóru síðan og aðrir komu í staðinn. Alltaf eitthvað um að vera á vellinum góða. Fótabúnaður okkar var langoftast venjulegir gúmmískór enda engin ástæða til að skipta um skó þó farið væri í fótbolta.
Boltarnir sjálfir þurftu að þola endalaus spörk og miklar þjáningar og létu stundum verulega á sjá. Þá þurfti að fara með þá alla leið suður í Strandgötu til Halldórs söðlasmiðs sem tók okkur alltaf vel. Hann bætti illa farna boltana okkar og lagaði, smurði og sagði: „Strákar mínir, þið verðið að fara vel með leðrið, það er lifandi og viðkvæmt.” Svo þegar spurt var hvað þetta kostaði þá ansaði hann ekki því tali. Eins gott því við áttum ekki krónu en við áttum sannarlega góðan vin þar sem Halldór söðla var.
Á þessum árum fól mamma mér það ábyrgðarstarf að passa Ragga yngri bróður sem þennan dag var vandlega pakkaður niður í kerru enda tiltölulega meðfærilegur á þeim árum. Eitt sinn geymdi ég hann á bak við austara markið meðan við strákarnir ærsluðumst í leiknum. Svo fór ég skyndilega heim í mjólk og kleinur en mamma spurði hvar barnið væri. Ég rauk upp og sagði: „Hann er á bak við markið.” Þaut svo í skelfingu austur á tún þar sem kerran var ein og yfirgefin á sínum stað. Sem betur fer var drengurinn þarna enn sultu slakur. Af ummerkjum að dæma höfðu kýrnar á túninu heimsótt bróður þar sem hann sat í einstæðingsskap sínum og slefuðu yfir hann en gerðu honum ekkert mein. Þær sáu í hendi sér að hann var sakleysið sjálft og sneru sér því aftur að grasinu græna. Engu að síður höfðu þær auga með drengnum og vonuðu að einhver hirti um hann fljótlega vitandi að þær gætu ekki staðið vaktina lengur en fram að mjöltum. Kýrnar vörpuðu því öndinni léttar þegar ykkar einlægur kom í loftköstum á svæðið og dreif sig síðan heim með kerruna og innihaldið.
Athugasemdir