Til hamingju með heilsuna!

Á næstu mánuðum munu birtast hugleiðingar hér í blaðinu frá fagfólki Heilsu- og sálfræðiþjónustun…
Á næstu mánuðum munu birtast hugleiðingar hér í blaðinu frá fagfólki Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar um heilsueflingu.

Fyrir rúmum tveimur árum skrifaði ég grein hér í Vikublaðið um þau áform að efla heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Heilsu- og sálfræðiþjónustan tók til starfa í kjölfarið með það að markmiði að vera miðstöð heilsueflingar. Þar er veitt sálfræðiþjónusta og heilsuráðgjöf fyrir börn og fullorðna, hvort sem þörf er á hefðbundinni meðferð, ráðgjöf, greiningu á vanda eða þverfaglegri teymisþjónustu. Að auki er áhersla á fræðslu og lýðheilsu forvarnir fyrir einstaklinga og vinnustaði.

Starfsemin hefur vaxið hratt og nú starfa um 20 fagmenn á stofunni. Ég er lánsöm og þakklát fyrir að vera hluti af vönduðu teymi fagmanna sem hafa byggt upp öfluga þjónustu, með virðingu, samvinnu og fagmennsku að leiðarljósi. Ekki er síður gefandi að vinna með öllu því fólki sem til okkar hefur leitað, fólki sem er í virkri leit að bættri líðan og heilsu. Vel á annað þúsund manns hafa sótt sér stuðning og meðferð síðustu tvö ár, hjá faghópi Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar.  Ég fyllist aðdáun þegar ég hugsa um þennan fjölmenna hóp sem setur heilsu sína í forgang.

Ég hef gaman að því að hjóla og ganga úti í náttúrunni. Þegar ég fer ein sæki ég í að fara sama gamla hringinn og er ekki mjög ævintýragjörn. Það er ágætt stundum en getur verið lítið gefandi til lengdar. Ég fer hinsvegar líka oft með öðrum. Fer þá gjarnan út fyrir þægindarammann í traustum félagsskap og kanna ótroðnar slóðir með kjark og þor í bakpokanum. Þrátt fyrir að stundum séu þær ferðir krefjandi veitir uppskeran mér næringu og hvatningu fyrir næstu ævintýri. Þegar við breytum út af vananum, könnum ótroðnar slóðir og þorum að fá aðra með okkur, fáum við gjarnan annað sjónarhorn á hlutina. Við eflumst, áttum okkur á eigin styrkleikum og þörfum og sjáum jafnvel betur það sem gefur lífinu lit eða tilgang. Við tökumst á við þá óvissu sem nýjum leiðum fylgir, finnum fyrir stolti og upplifum eitthvað nýtt. Það er gefandi að upplifa og verða vitni að persónulegum sigrum, þegar áskoranir hindra ekki lengur og gróandinn í uppskeru erfiðisins tekur yfir.

Heilsuefling er risastórt lýðheilsuverkefni sem snertir okkur öll og fagfólk Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar mun sannarlega leggja sitt af mörkum þar næstu árin. Vinnum áfram saman að því að varða leiðina að betri líðan, heilsueflingu og auknum lífsgæðum.

Til hamingju með heilsuna öll!


Athugasemdir

Nýjast