Lýðræðið og kirkjan
Lýðræði eru því miður ekki sjálfsögð mannréttindi allra íbúa heimsins en stundum virðumst við hérlendis og víðar taka þeim sem slíkum. Það að vera lýðræðislegt ríki gerist ekki yfir nótt, það þarf að ala samfélög upp til þess. Lýðræði er til dæmis einn grunnþáttur menntastefnunnar í aðalnámskrá skólanna, því það að verða virkur, hæfur og gagnrýninn þáttakandi í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi er æfing og þarf að læra. Stundum virðumst við nú sum þurfa meiri þjálfun í að vera ósammála eins og samfélagsmiðlar hafa lýst frekar skæru ljósi á þegar umræða um einstök mál verður mjög “pólariseruð”. Á hverjum tening eru fleiri en tvær hliðar og þó að svartar og hvítar sviðsmyndir fái mesta athygli þá eru allavega 50 tegundir af gráum þar á milli. En þetta sem okkur finnst sjálfsagt, að hafa rödd og frelsi til að vera ósammála er brothætt og miðað við alþjóðasamfélagið þessa dagana óttast kona að það sé auðvelt að gleyma því.