Ingibjörg Isaksen tilkynnir um framboð sitt til formennsku í Framsókarflokknum

Ingibjörg Isaksen vill verða formaður Framsóknar.
Ingibjörg Isaksen vill verða formaður Framsóknar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, býður sig fram til formanns á flokksþingi Framskónrflokksins en það fer fram a Hilton hótelinu um miðjan febrúar n.k.

Þetta kemur fram í færslu sem Ingibjörg setti á Facebook rétt í þessu og er svohljóðandi:.

Kæru félagar og vinir
 
Ég býð mig fram til formennsku á komandi flokksþingi Framsóknar og sækist eftir umboði okkar öflugu grasrótar til að leiða flokkinn inn í nýja tíma.
Við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif. Flokkurinn okkar stendur á tímamótum og það gerir íslenskt samfélag líka.
Undanfarið hefur kastljósið beinst í auknu mæli að bágri stöðu barna og ungmenna, ekki eingöngu í menntakerfinu heldur víðar. Verkefnið er ærið, handtökin mörg og það er mín einlæga trú að samvinnuhugsjónin sem er undirstaða Framsóknarstefnunnar sé sú nálgun sem muni skila mestum árangri til framtíðar fyrir börnin okkar.
 
En við stöndum líka frammi fyrir efnahagslegum áskorunum, sem heimilin í landinu fara ekki varhluta af. Stærsta hagsmunamál okkar allra, heimilanna og fyrirtækjanna, er að koma vaxtaumhverfinu aftur í eðlilegra horf og ná hinni þrálátu verðbólgu niður. Það, á sama tíma, og við stöndum vörð um atvinnulífið og verðmætasköpun. Velferðin byggir á því að fólk hafi vinnu og að fyrirtækin dafni.
 
Auk þeirra mála sem ég nefndi í upphafi, er margt um að vera á hinu alþjóðlega sviði. Þróun síðustu vikna og mánaða sýnir vel hversu hverfull heimurinn er. Á óvissutímum er mikilvægt að tala af yfirvegun og skynsemi. Þannig öxlum við ábyrgð.
 
Við í Framsókn förum ekki fram með háværar yfirlýsingar. Traust ávinnst ekki með því að hafa uppi gífuryrði, heldur með verkum okkar. Það er mín einlæga trú að ef við tölum skýrt og umbúðalaust, lofum engum skýjaborgum en stöndum við það sem við segjum, að þá muni fólk fylkja sér að baki okkur að nýju.
 
Ég settist fyrst á þing árið 2021 og hef gengið í gegnum tvennar alþingiskosningar síðan og verið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast á þeirri leið Framsóknarfólki víða um land. Áður sat ég í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og svo í bæjarstjórn Akureyrar frá árinu 2014, og starfaði lengst af sem kennari og framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar.
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar um allt land þar sem tækifærin eru okkar. Framsókn er sterk á sveitarstjórnarstiginu en betur má ef duga skal. Þar skiptir öflug grasrót flokksins okkar sköpum.
 
Sjaldan eða aldrei, hefur mér fundist rödd Framsóknar skipta meira máli og erindi okkar jafnt brýnt.
 
Kæru félagar.
 
Staða flokksins kallar á breytingar og verkefnin framundan eru ærin. Nú tekur við vinnan við að ávinna okkur traust landsmanna, tala skýrt og sækja fram.
Ég lofa ykkur því að njóti ég stuðnings ykkar til formanns mun ég leggja mig alla fram um að vinna í þágu ykkar fólksins, jafnt í höfuðborginni sem og á landsbyggðinni.
Ég treysti mér í verkin og er reiðubúin að bretta upp ermar.

Nýjast