VMA - Á lokasprettinum í bifvélavirkjuninni

Viktoría Fönn Guðmundsdóttir og Óskar Eiríkur Sveinsson.    Mynd vma.is
Viktoría Fönn Guðmundsdóttir og Óskar Eiríkur Sveinsson. Mynd vma.is

Á annan tug nemenda stunda nám í bifvélavirkjun í VMA og er þetta síðasta önnin þeirra í náminu. Brautskráning er á dagskrá í lok maí nk. og sveinspróf í september. Það skiptir að sjálfsögðu gríðarlega miklu máli að útskrifa svo marga bifvélavirkja á einu bretti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins, því mikill og viðvarandi skortur hefur verið á fagfólki í þessari grein.

Tveir þeirra nemenda sem nú eru á lokaönninni í bifvélavirkjuninni í VMA eru Viktoría Fönn Guðmundsdóttir og Óskar Eiríkur Sveinsson.

„Eftir að ég fékk bílprófið á sínum tíma átti ég svo mikið af druslum að ég neyddist til þess að læra að gera við þær. Út frá þessu kom áhugi minn á bílum. Ég var þó ekki með þetta efst í huga þegar ég fór í Borgarholtsskóla í Reykjavík. Satt best að segja var ég dálítið týndur á þeim tíma. Fyrst fór ég í bókmenntir, síðan í rennismíði og loks í bifvélavirkjann. Ég datt síðan út úr náminu í Covid og fór að vinna, var í fullri vinnu í um tvö ár fyrir sunnan en flutti þá norður og sótti um bifvélavirkjann hér í VMA. Ég hafði tekið nokkra áfanga í Borgarholtsskóla og fékk hluta þeirra metna inn í námið hér,“ segir Óskar Eiríkur.

„Ég ætlaði fyrst að verða vélstjóri, því allt í kringum mig eru vélstjórar, m.a. bæði pabbi og afi og reyndar er systir mín núna í vélstjórnarnáminu hér í VMA. Fyrst þegar ég kom inn í skólann fór ég á listnámsbraut en færði mig síðan yfir á grunndeild málmiðnaðar og var þar eina stelpan í mínum hópi. Tengslin við vélstjórnina í fjölskyldunni höfðu auðvitað sitt að segja að ég endaði í þessu. Í gegnum tíðina hef ég brasað í einu og öðru með pabba í bílskúrnum, þegar hann kemur af sjónum, og smám saman hefur maður fengið þetta í æð.
Í grunndeildinni hafði ég til að byrja með í huga að fara í vélstjórn en í ljósi þess að ég hef notið þess að brasa í kringum bíla varð niðurstaðan sú að fara frekar í bifvélavirkjunina. Og í framhaldinu, að loknu náminu hér, hef ég í huga að fara suður og bæta við mig námi í bílasprautun og -málun í Borgarholtsskóla,“ segir Viktoría Fönn.

Til þess að ljúka náminu í VMA þurfa nemendur að hafa lokið við ferilbók, sem í stórum dráttum er yfirlit yfir það sem þeir læra og tileinka sér á verkstæðunum undir handleiðslu meistara. Óskar Eiríkur hefur lokið við ferilbókina og Viktoría Fönn er langt komin. Óskar starfar hjá Höldi – Bílaleigu Akureyrar, er þar á þeim hluta verkstæðis Hölds sem gerir við bíla í eigu Bílaleigunnar. Viktoría starfar hjá fyrirtækinu Bíleyri á Akureyri. Bæði hrósa þau sínum vinnustöðum í hástert og segja andann vera góðan og þau hafi lært heilmikið.

Til hliðar við námið í skólanum, sem er fjóra daga í viku, frá mánudegi til fimmtudags, frá 8:30 til 15:30, og fram að hádegi á föstudögum, vinna þau hjá framangreindum fyrirtækjum og Viktoría segist þar að auki taka vaktir í Leirunesti á kvöldin og um helgar. Dagarnir eru því drjúgt langir.

 

Frá þessu segir á vma.is

Nýjast