Rarik í samstarf við Drift EA

Frá vinstri Kristján Þór Júlíusson Drift EA, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunar og …
Frá vinstri Kristján Þór Júlíusson Drift EA, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunar og framtíðar hjá Rarik, og Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Drift EA Mynd Aðsend

Rarik hefur gengið til liðs við hóp bakhjarla Driftar EA til að styðja við öflugt nýsköpunarumhverfi og atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Með samstarfinu styður Rarik starfsemi Driftar EA og tekur virkan þátt í að styrkja umgjörð skapandi lausna og atvinnuuppbyggingar um land allt.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Drift EA í morgun.

„Það er afar mikilvægt fyrir okkur að eiga í samstarfi við sterka og framsækna bakhjarla sem deila framtíðarsýn okkar. Með komu Rarik eflum við enn frekar innviði frumkvöðlasamfélagsins og styrkjum tengingar milli atvinnulífs, fræða og nýrra hugmynda,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Drift EA.

Rarik lítur á nýsköpun sem mikilvægan þátt í sjálfbærri þróun og sterkum samfélögum um land allt. Samstarfið fellur vel að stefnumarkmiðum fyrirtækisins um að nýta nýjustu tækni og nýsköpun til að auka skilvirkni og draga úr sóun, setja umhverfi, samfélagsábyrgð og eflingu byggðar í forgang og tryggja áreiðanlega afhendingu orku sem styður við orkuskipti og þróttmikið atvinnulíf.

,,Við viljum efla vistkerfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs sem skilar samfélaginu verðmætum til framtíðar, ekki síst á landsbyggðinni. Með því að styðja Drift EA erum við að leggja okkar af mörkum til nýsköpunar sem styrkir byggðir, eflir atvinnulíf og styður orkuskipti með skilvirkari og framsæknari nálgun,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunar og framtíðar hjá Rarik.

Drift EA er miðstöð nýsköpunar þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og hugmyndasmiðir koma saman í lifandi samfélagi sem byggir á þekkingu, samvinnu og aðgengi að aðstöðu sem styður við vöxt og þróun hugmynda. Með þátttöku sinni undirstrikar Rarik mikilvægi nýsköpunar sem drifkrafts framtíðaruppbyggingar, ekki síst á landsbyggðinni og sýnir með skýrum hætti vilja sinn til að styðja við atvinnuþróun á Norðurlandi.

Nýjast