21. janúar, 2026 - 12:04
Hreiðar Eiríksson
Hreiðar Eiríksson veltir vöngum
Friðarverðlaun Nóbels fóru til einstaklings sem ég hafði áður ekki heyrt nefndan og vissi ekki til að hefði nokkurn skapaðan hlut lagt af mörkum í þágu friðar, hvorki staðbundin né heimsfriðar. Örugglega samt ágætur einstaklingur eins og nær allir þegnar heims.
Eftir að Donald Trump sótti inn í Venesúela þann sem þar hafði að flestra mati rænt þar völdum, stefndi í að hann ætlaði að setja sömu stjórnvöld í stól landsstjóra síns þar í landi. Sterk rök hníga að því fyrirkomulagi þó það sé vissulega ekki lýðræðisleg.
Handhafi Friðarverðlauna Nóbels kunni ráð við þessu og spilaði á barnaskap, hégómagirni og siðblindu Bandaríkjaforseta. Hún hreinlega gaf honum Friðarverðlaun Nóbels til eignar og kom sér þannig í mjúkinn hjá honum. Þannig gerði hún tilraun til að kaupa sér landsstjórastöðuna í Venesúela. Svo sjáum við til hvernig það mun ganga.
Allt í einu man ég eftir því að þegar ég útskrifaðist frá Lögregluskólanum árið 1988 fékk ég verðlaunabikar sem kallaður er "Íslenskubikarinn" og var veittur þeim útskriftarnemanda sem hafði fengið besta einkunn í íslensku. Þetta var að vísu farandbikar en hann hefur verið tekinn úr notkun (eins og sjá má á lögregluskýrslum nútímans) og ég get örugglega fundið hann. Svo er bara að ákveða hvort ég á að fara til Washington, gefa Bandaríkjaforseta ,,Íslenskubikarinn" og reyna að kaupa mér landsstjórastöðu á Grænlandi.
Auðvitað á maður ekki að flimta með grafalvarlega hluti - en grín hefur í allri mannkynssögunni verið notað til að kalla fram fáránleika hegðun manna og framgöngu samfélaga.