Stefán Katrínarson og Rúnar Snær Ingason stunda báðir nám á fjórðu önn í húsasmíði í VMA. Á haustönn 2026 verða þeir báðir á fullu í byggingarvinnu, að safna reynslu og samningstíma, en koma aftur í skólann á fimmtu önn að ári liðnu og munu brautskrást vorið 2027 og taka sveinspróf í framhaldinu. Báðir taka þeir áfanga til stúdentsprófs samhliða húsasmíðanáminu og stefnan er því að útskrifast bæði sem húsasmiðir og stúdentar.
„Ég byrjaði að vinna við smíðar þegar ég var í 7. eða 8. bekk grunnskóla og fékk strax mikinn áhuga á þessu. Ég hafði velt fyrir mér að fara í bifvélavirkjann en eftir að hafa prófað smíðarnar var ekki aftur snúið og ég var ákveðinn að læra þetta,“ segir Stefán sem er fæddur og uppalinn á Akureyri en undirstrikar að hann eigi ættir sínar að rekja til Ólafsfjarðar. Til frekari áréttingar á upprunanum segist hann undanfarin sumur hafa unnið í byggingarvinnu hjá Herði Ólafssyni húsasmíðameistara í fyrirtækinu Trésmíði ehf í Ólafsfirði. Stefán hefur því verið eins og farfuglarnir og flutt búferlum frá Akureyri á vorin og komið aftur síðla sumars. Á meðan á sumarvertíðinni hefur staðið hefur hann búið hjá afa sínum og ömmu í Ólafsfirði. Hann segir það hafa verið sér afar lærdómsríkt að vinna hjá Trésmíði, þar hafi hann fengið traust til að spreyta sig á mörgum ólíkum verkefnum sem hafi kennt sér margt. Hjá Trésmíði eru um tíu starfsmenn og er bróðurpartur verkefna í Fjallabyggð (Ólafsfirði og Siglufirði) og á Dalvík. „Markmiðið hjá mér er alveg skýrt: að klára þetta nám og stúdentinn, fara í meistarann í framhaldinu og starta fyrirtæki!“ segir Stefán
„Ég bý á Akureyri en er ættaður frá Dalvík. Raunar fæddist ég í Kaupmannahöfn, flutti til Dalvíkur eins árs gamall, bjó þar í eitt ár og hef verið á Akureyri síðan,“ segir Rúnar Snær Ingason. „Það má eiginlega segja að ég hafi fengið smíðabakteríuna þegar ég var að hjálpa afa mínum að byggja sumarbústað. Þau kynni af smíðunum kveiktu í mér að læra þetta. Í því felast miklir möguleikar að ljúka húsasmíðinni og fá full réttindi og taka líka stúdentspróf því það opnar möguleika á frekara námi. Ég hef ekki ákveðið hvað ég geri í framhaldinu en það kemur til greina að halda áfram og læra mögulega byggingaverkfræði,“ segir Rúnar Snær Ingason sem hefur undanfarið ár starfað hjá byggingarverktakanum HeiðGuðByggir ehf á Akureyri.
Stefán og Rúnar eru sammála um að smíðarnar séu ekki síst áhugaverðar vegna þess að fjölbreytnin sé svo mikil. Einn daginn sé unnið að því að steypa upp hús, næsta dag sé unnið í timburhúsum og þann þriðja í innréttingum. Allt byggist þetta á því að hugsa í lausnum og það sé skemmtilegt.
Rúnar segir það vissulega stífa dagskrá að vera í fullu námi í húsasmíðinni og taka samhliða áfanga til stúdentsprófs. Öllu þessu komi hann þó heim og saman með því að taka stúdentsprófsáfangana í fjarnámi. Stefán segist einnig taka hluta stúdentsprófsáfanganna í fjarnámi VMA.
En hvernig líkar þeim húsasmíðanámið í VMA? Frábært, segja þeir báðir. Kennararnir séu fyrsta flokks og andinn mjög góður.
Vefur VMA segir fyrst frá.