Ofbeldi hefur margar birtingarmyndir. All oft sést á fólki sem beitt er líkamlegu ofbeldi en alls ekki alltaf. Ofbeldinu er þá beint að þeim hluta líkamans sem oftast er falinn með fatnaði. Slíkt er þá gert meðvitað svo ekki komist upp um það. Ekki síður alvarlegt er andlegt ofbeldi.
Nýlega var felldur dómur yfir ungri konu sem sökuð er um að hafa valdið föður sínum bana. Hún er líka sökuð um langvarandi alvarlegt ofbeldi gegn foreldrum sínum. Þegar dómurinn var felldur kom í ljós að foreldrarnir höfðu ítrekað leitað sér læknisaðstoðar vegna áverka en ekki viljað tilkynna eða kæra vegna tengsla við gerandann; dóttur sína. Læknarnir voru þar með bundnir þagnarskyldu og gátu ekki tilkynnt til lögreglu eða þar til bærra yfirvalda.
Formaður Læknafélags Íslands kom í viðtal að þessu tilefni og benti á þann alvarlega annmarka í lögum að læknar hafa ekki heimild til að ganga „gegn vilja“ skjólstæðinga sinna í tilfellum sem þessum. Þarna telja þeir nauðsynlegt að breyta lögum þannig að hægt sé að grípa inn í í alvarlegum tilfellum. Nýlega var svo viðtal við yfirlækni á Gjörgæsludeild LSH sem tók undir alvarleika þessara mála en hann benti líka á að í lögum er að finna smugu sem hægt væri að nota.
Læknar eru í þeirri erfiðu stöðu og hafa kannski þekkt skjólstæðinga sína í mörg ár og þykir þá erfitt að ganga gegn vilja þeirra. Þeir eiga sumir meira að segja erfitt með að neita einstaklingi um vottorð vegna ökuleyfis þótt augljóst sé að viðkomandi sé ekki hæfur til að stjórna ökutæki en þetta er efni í aðra grein.
Sinnuleysi er líka ofbeldi
Vitaskuld er þarna um vandrataða leið að fara og gæta þarf að persónuvernd og friðhelgi en nauðsynlegt er engu að síður að eitthvað verði gert.
Í dag er það svo að hver sem er, sem telur að brotið sé á barni, getur tilkynnt það til barnaverndaryfirvalda. Það þykir meira en sjálfsagt og eðlilegt. Við hljótum að geta fundið leið þegar kemur að eldra fólki sérstaklega en sá hópur er einstaklega viðkvæmur og liggur vel við höggi.
Undirrituð vann um skeið með og fyrir hóp fólks sem margt hvert var í viðkvæmri stöðu. Þegar einstaklingur er kominn af fyrstu stigum heilabilunar er hann oftast búinn að missa þann hæfileika að skilja og greina á milli þess sem er rétt og rangt. Líka þegar brotið er gegn honum.
Þau brot sem oftast komu inn á borð okkar snéru að fjárhag. Fjarskyldur ættingi birtist kannski allt í einu og bað viðkomandi að ábyrgjast lán eða lána sér pening. Erfðaskrám var breytt og eignir seldar. Þá urðum við vör við sinnuleysi þegar kom að umönnun þannig að viðkomandi nærðist illa, var ekki þrifinn og jafnvel synjað um umgengni við sína nánustu. Þetta er ljótt en engu að síður staðreynd.
Þessu er hægt að breyta ef viljinn er fyrir hendi!
Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.