Aðstaðan á Húsavík ein sú glæsilegasta á landinu

Öll fjölskyldan með í crossFit. Myndir/aðsendar
Öll fjölskyldan með í crossFit. Myndir/aðsendar

Arnór Ragnarsson forritari hjá Hugsmiðjunni féll fyrir Crossfit fyrir tæpum áratug og hefur aldrei horft til baka. Hann æfir sjálfur af kappi og þjálfar aðra crossfittara í Smiðjunni á Húsavík sem hann segir eina bestu Crossfit-stöð á landinu. Vikublaðið ræddi við Arnór á dögunum.

 

Mikil gróska hefur verið í íþróttalífinu í Smiðjunni Húsavík undanfarin ár þar sem Crossfit Húsavík hefur byggt upp glæsilega aðstöðu. Stanslaus umferð alla daga af fólki sem æfir íþróttir sínar af kappi eða sækja þangað sjúkraþjálfun. Arnór segir að aðsókn í Crossfit sé stöðug og sífellt bætist við nýtt fólk.

„Bara til að taka dæmi, þá vorum við með um 80 manns síðasta laugardag [Fyrir viku] sem tóku þátt í einni æfingu. Já, það er óhætt að segja að það sé alltaf nóg um að vera í Smiðjunni,“ segir Arnór en hjá honum er CrossFit lífstíll sem jaðri við trúarbrögðum eins og hann orðar það sjálfur í léttum dúr.

„Ég byrjaði í þessu árið 2017, þá fór ég á grunnámskeið hjá Ástu Hermanns, einum af eigendum CrossFit Húsavík. Ég hafði verið í Víkingaþrekinu hjá Mjölni þar á undan á meðan ég bjó í Reykjavík, en hef stundað þetta án hléa síðan enda, gríðarlega gaman og gefandi,“ segir Arnór

Fjölbreytnin vegur þyngst

Arnór segir aðspurður að það sé margt sem heilli sig við þessa grein íþrótta en fjölbreytnin og skipulagið haldi honum við efnið. „Fyrir mína parta vegur náttúrlega þyngst að þetta eru fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar. Það eru lykilþættir í þessu sem mér finnst trompa það að æfa sjálfur í ræktinni en það er skipulagið í kringum þessar æfingar. Ég þarf á því að halda að hafa skýrt skipulag á því hvað ég ætla að gera og klára það bara á klukkutíma, í stað þess að standa og velta fyrir mér hvað ég eigi að gera næst, taka eina lyftu hér og eina þar eins og maður var gjarna að gera í ræktinni,“ útskýrir Arnór og bætir við að fyrir vikið verði æfingarnar svo skilvirkar.

„Maður kemur inn og er búinn á klukkutíma með erfiða æfingu. Fjölbreytnin í æfingunum er líka mikil. Sumar þeirra reyna á styrk og aðrar á tækni og úthald. Það að læra gera nýja hluti er bæði krefjandi og skemmtilegt, það keyrir mann áfram í þessu,“ segir hann.

Fjölskyldan svitnar saman

 

Fjölskylda Arnórs er líka því marki brennd að hafa fengið crossfit bakteríuna en eiginkona Arnórs, Þorbjörg Arna Unnsteinsdóttir stundar íþróttina með honum af mikilli ástríðu og það gerir unglingsdóttir þeirra einnig. „Strákana drögum við stundum með okkur líka á fjölskylduæfingar. Það er hægt að hafa þetta sport fyrir alla, ef maður vill,“ segir Arnór og vísar þar til sona sinna sem eru 7 og 10 ára.

Svo hefur Arnór verið að sprikla heilmikið með systur sinni, Ruth Ragnarsdóttur en þá í íþróttagrein sem kallast Hyrox og felst í blandaðri styrk og úthaldsþjálfun. „Þetta svipar á margan hátt til crossfit, margar æfingar sem eru líkar að hluta og svo eru hlaup með,“ segir Arnór en vörumerkið Hyrox er alþjóðleg fitness-keppni og þjálfunarform sem sameinar hlaup og hagnýtar styrktaræfingar í átta umferðum, þar sem keppendur hlaupa 1 km og framkvæma síðan eina styrktaræfingu átta sinnum í röð, sem reynir á styrk, úthald og hraða. Greinin byggir á samræmdri keppnisformúlu um allan heim.

„Þannig að þetta eru í heildina 8 km. og 8 æfingar sem þarf að klára á tíma og er því aðeins eins og kapphlaup með styrkæfingum,“ segir Arnór.

Kepptu í London í desember

Í desember fóru þau systkinin og kepptu í paraflokki á alþjóðlegu Hyrox móti í London þar sem yfir 40 þúsund keppendur öttu kappi í öllum flokkum. Þau settu sér það markmið að gera sitt besta og hafa gaman að því um leið og vera eins nálægt og kostur er að klára æfingarnar á 60 mínútum, en það tókst svo sannarlega og þau luku keppni á 63 mínútum. „Það var ógeðslega gaman, gekk rosalega vel og ég er bara þrælmontinn með okkur,“ segir Arnór og bætir við: „166 sæti af 2.853 pörum (topp 5.8%), ég meina, það er helvíti gott fyrir fyrstu keppnina okkar myndi ég segja.“

Arnór segir undirbúninginn fyrir mótið hafa verið strembinn en að systir hans hafi drifið hann áfram. „Ruth lét mig hlaupa og hlaupa sem mér þótti ekkert sérstaklega skemmtilegt en þessar hlaupaæfingar skiluðu sér heldur betur og er ég pottþéttur á því að við hefðum ekki verið nálægt 60 mínútum án þeirra,“ segir Arnór og bætir við að hann útiloki ekki að taka þátt aftur en þá verði Ruth að vera með í för.

Smiðjan tekið greinina upp á sína arma

Smiðjan Húsavík hefur líka tekið þessa íþróttagrein undir sína arma og að sögn Arnórs eru fastar æfingar í greininni. „Smiðjan er með tvo tíma í viku sem eru tileinkaðir Hyrox-æfingum. Við erum með sér Hyrox-prógramm samhliða Crossfit-prógramminu.“

Í þessum skrifuðu orðum er grunnnámskeið í crossfit og hyrox að klárast í Smiðjunni en ætlast er til að iðkenndur ljúki slíku námskeiði áður en það hefur æfingar í Smiðjunni. Arnór segir að það sé ætíð góð aðsókn í grunnnámskeiðin sem þau reyna að halda að lágmarki tvisvar á ári. „Þetta fer auðvitað eftir aðsókn, en yfirleitt erum við með janúarnámskeið og svo aftur í apríl/maí. Svo er reyndar yfirleitt annað þegar fer að hausta. Við þjálfararnir verðum yfirleitt vör við og fólk er líka farið að spyrja hvenær næsta námskeið verður. Þessi þörf kemur í bylgjum og þegar við finnum eftirspurnina aukast þá skellum við í grunnnámskeið,“ segir Arnór aðspurður um aðsókn í grunnnámskeiðin. Þegar blaðið kom út á fimmtudag var verið að útskrifa 10 nýja crossfit iðkenndur.

Mikilvægt að fá tilsögn

Þegar iðkandi hefur lokið námskeiði fær hann aðgang að stöðinni allan sólarhringinn til að stunda sínar æfingar en svo eru auk þess sérstakir þjálfaratímar oft í viku. „Í crossfittinu, þá erum við að vinna með t.d. ólympískar lyftingar og þá viljum við að iðkendur séu búnir að fá góða grunnþjálfun áður en það fer að æfa á eigin spýtur. Margt af þessu er tæknilega flókið og getur valdið meiðslum ef fólk veit ekki hvað það er að gera,“ útskýrir Arnór og bætir við að aðstaðan á Húsavík sé eitthvað sem bæjarbúar geti verið stoltir af.

Glæsileg aðstaða

„Ég hef farið víða og reyni yfirleitt að leita uppi crossfit stöð á ferðalögum mínum um landið. Ég verð að segja að í samanburði við flestar af þessum stöðvum þá erum við að líta mjög vel út hér á Húsavík. Þetta er með flottari stöðvum á landinu myndi ég segja. Svakalega flott rými og rúmgott. Við finnum líka fyrir því hjá því fólki sem kemur og heimsækir okkur, það á yfirleitt ekki til orð yfir því hvað stöðin er flott,“ segir Arnór og bætir við að þegar aðstaðan sé til fyrirmyndar séu líka meiri líkur á að fólk endist í sportinu sem sé svo sannarlega tilfellið á Húsavík.

Arnór leggur líka áherslu á að Crossfit sé fyrri alla aldurshópa enda sé greinin hönnuð þannig að auðvelt sé að aðlaga æfingar eftir getu. Þetta sé hreyfing sem byggir mann upp og fólk sjái fljótt árangur stundi það reglulegar æfingar og hugi að hvíld á milli. „Fyrir mig þá hef ég aldrei verið betri í skrokknum en núna og þetta má aðlaga fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri fólk er. Mesta fegurðin við þetta sport finnst mér vera að ég get farið með afa mínum og við tökum klukkutíma æfingu saman og æfingarnar eru bara aðlagaðar eftir getu okkar, svo komum við alveg jafn þreyttir af klukkutíma æfingu,“ segir Arnór að lokum.

 

Nýjast