Stuðningsmaður með nýstárlegar aðferðir við atkvæðaveiðar

Jón Elvar Hjörleifsson merkti túnin sín Miðflokknum. Mynd/epe
Jón Elvar Hjörleifsson merkti túnin sín Miðflokknum. Mynd/epe

Kosningabaráttan er nú í hámarki fyrir alþingiskosningarnar sem fara fram þann 25. september nk. og frambjóðendur eru úti um víðan völl á atkvæðaveiðum.

Lítið þýðir þó að leggja netin fyrir Jón Elvar Hjörleifsson Bónda að Hrafnagili í Eyjafirði en hann er löngu búinn að ákveða sig. Eyfirðingar ráku upp stór augu þegar risastórar merkingar birtust á túnum Jóns Elvars með listabókstaf Miðflokksins X-M.

Blaðamaður Vikublaðsins renndi inn Eyjafjörðinn í dag til að ná tali af Jóni. Reyndar lenti hann á villigötum og endaði á bænum Klauf og hitti þar fyrir Hermann Inga Gunnarsson bónda, sem var fljótur að vísa á Jón.

Hrafnagil

Ástæðan fyrir þessu villuráfi er sú að á Miðflokkstúninu er einnig risastór ör sem vísar að Klauf. Þegar blaðamaður hitti loks á Jón í Hrafnagili viðurkenndi hann að það hafi verið með vilja gert að vísa á Hermann í Klauf. „Já, þetta er smá prakkaraskapur, hann [Hermann] þykist vera í Framsókn enn þá,“ segir Jón, hlær með bakföllum og játar að það sé enn smá rígur á milli Framsóknarflokks og Miðflokks.

Aðspurður hvort hann sé nokkuð í framboði fyrir Miðflokkinn segir Jón að svo sé ekki. „Ekki eins og er a.m.k. en ég er grjótharður stuðningsmaður,“ segir hann og bætir við að þetta uppátæki hljóti að veiða einhver atkvæði fyrir Miðflokkinn. „Það hlýtur að vera – þetta er eini landsbyggðaflokkurinn af einhverju viti.“

Hrafnagil


Nýjast