Í kjölfar hinna miklu og jákvæðu tíðinda um styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku á Norðausturlandi sem Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, kynnti á fundi á Þórshöfn þann 6. nóvember sl. hittust forsvarsmenn Framsýnar stéttarfélags og orkufyrirtækjanna Qair Ísland og Arctic Hydro á fundi á Húsavík í gær, 2. desember. Orkufyrirtækin starfrækja nú þegar tvær virkjanir á svæðinu, sem eru vatnsaflsvirkjanirnar Köldukvíslarvirkjun (2,65 MW) í Tjörneshreppi og Þverárvirkjun í Vopnafirði (6 MW). Ennfremur eru félögin með allnokkra virkjanakosti í þróun og eru þeir m.a. vindorkukosturinn Hnotasteinn (216 MW) í Norðurþingi, ásamt vatnsaflskostunum Árskógsvirkjun (5 MW) í Dalvíkurbyggð, Tunguárvirkjun (2 MW) í Þistilfirði og Staðarárvirkjun (1 MW) í Bakkafirði auk þróunarkosta í Eyjafjarðarsveit.