Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN tók saman það helsta sem einkenndi starfsemi HSN á árinu sem er að líða.
Það er engum blöðum um það að fletta að rekstur heilbrigðisþjónustu er afar krefjandi og er rekstur HSN á liðnu ári þar engin undantekning. Rekstrarlega stóðum við frammi fyrir áskorunum, þar á meðal verulegan halla bæði á síðasta ári og líðandi ári, sem stafaði að stórum hluta af ófjármögnuðum kjara- og stofnanasamningum. Þrátt fyrir það tókst okkur að viðhalda og styðja við áframhaldandi uppbyggingu á þjónustu. Við höfum unnið markvisst að því að tryggja stöðugleika í rekstri með breytingum á skipulagi og öflugri teymisvinnu, með aukinni áherslu á stafræna ferla með það að markmiði að bæði lækka kostnað en samtímis efla þjónustu.