Nýsköpunarsjóðurinn Kría fjárfestir í 11 sprotafyrirtækjum
Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) hefur tilkynnt niðurstöðu í fjárfestingátaki þar sem sjónum var beint að ungum sprotafyrirtækjum. Sjóðurinn auglýsti átakið í september og október síðastliðnum. Alls sóttu 88 félög um fjárfestingu sem er rúmlega 20% aukning frá fyrra átaki árið 2023. Eftir ítarlegt valferli voru ellefu félög valin úr hópi umsækjenda og mun NSK fjárfesta í þeim fyrir samtals um 300 milljónir króna. Eitt af skilyrðum átaksins er að félögin tryggi sér a.m.k. sömu upphæð frá einkafjárfestum. Samanlagt mun fjárfesting NSK og einkafjárfesta því verða að minnsta kosti 600 m.kr. í þessum ellefu félögum.