MýSköpun lýkur fjármögnun og stefnir á uppbyggingu á Þeistareykjum
Örþörungafyrirtækið MýSköpun ehf. hefur lokið 300 milljón króna fjármögnun vegna uppbyggingar örþörungaræktar á Þeistareykjum. Framtakssjóðurinn Landvættir slhf. á Akureyri verður nýr kjölfestufjárfestir félagsins og aðkoma sjóðsins gerir félaginu kleift að ljúka undirbúningi nýrrar hátækniframleiðslueiningar félagsins. MýSköpun stefnir að því að framleiða verðmæta örþörunga í sérhæfðu framleiðsluhúsnæði sem reist verður við jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum. Áætlað er að reisa um 10.000 m2 framleiðsluhúsnæði og stórauka framleiðslu í áföngum sem mun skapa tugi starfa á Norðausturlandi. Afurðir MýSköpunar verða að mestu seldar á erlenda markaði til notkunar í fæðubótarefni, en slíkir markaðir hafa verið í miklum vexti.