Nú er langt liðið á október mánuð, sem oft er nefndur bleikur október og tileinkaður baráttunni við krabbamein. Flest okkar eigum við ættingja eða vini sem hafa þurft að berjast við þennan skæða óvin, fyrir utan þá sem hafa þurft að berjast gegn honum óumbeðið. Margir falla í valinn eftir erfiða baráttu en sem betur fer eru einnig margir sem knýja fram sigur. Þessa dagana hugsa ég mikið til Brynju systur minna sem lést eftir afar erfiða og snarpa baráttu við hið illvíga mein, en hún lést um fjórum mánuðum frá því að hún var greind.
Það er mikið áfall að greinast með krabbamein, einnig fyrir aðstandendur. Við tekur mikil óvissa og mikilvægt að þétta hópinn í kringum þann sem hefur greinst með krabbamein. Baráttan er oft löng og ströng, en stundum er hún snörp og sjúkdómurinn illvægur og gefur engin grið.