KEA og EBAK – Félag eldri borgara á Akureyri, fyrir hönd óstofnaðs félags ÍBA 55+, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um undirbúning og þróun íbúðakjarna fyrir fólk 55 ára og eldra á Akureyri. Markmið samstarfsins er að kanna forsendur fyrir uppbyggingu sjálfstæðs búsetuforms sem leggur áherslu á lífsgæði, gott aðgengi, sjálfbærni og sterk tengsl við nærsamfélagið.
Verkefnið mun meðal annars byggja á hugmyndum um svokallaða lífsgæðakjarna og "íbúðir út lífið", þar sem íbúðir og sameiginleg rými styðja við virkt samfélag eldri borgara og gerir þeim kleift að búa á sínu heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að skipaður verði sameiginlegur undirbúningshópur sem vinni að greiningu á eftirspurn, greiðslugetu og búsetuþörfum, kanni mögulegar staðsetningar og eigi samtal við skipulagsyfirvöld. Niðurstöður þeirrar vinnu geta, ef forsendur reynast hagfelldar, leitt til stofnunar formlegs undirbúnings- og þróunarfélags sem taki til frekari þróunar og undirbúnings framkvæmda.