Framsýn stéttarfélag stóð fyrir félagsfundi í gær um atvinnumál og stöðuna hjá PCC á Bakka sem er mjög alvarleg um þessar mundir. Þá voru lífeyrismál einnig til umræðu enda hefur almennt verkafólk áhyggjur af boðuðum skerðingum stjórnvalda á réttindum fólks í almennu lífeyrissjóðunum.
Fundurinn var fjölmennur og greinilegt var að fundarmenn höfðu miklar áhyggjur af stöðunni á Bakka en sérstakir gestir fundarins voru Kári Marís Guðmundsson framkvæmdastjóri PCC og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri Lsj. Stapa.
Eftir miklar og góðar umræður um málefni fundarins var samþykkt að álykta um atvinnu- og lífeyrismál. Meðfylgjandi ályktanirnar með fréttinni voru samþykktar samhljóða í lok fundar.