Hallgrímur Mar tryggði KA stig gegn HK

KA og HK gerðu 3:3 jafntefli í hörkuleik á Þórsvelli í dag á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks virtist allt stefna í sigur HK- manna eftir að Hólmbert Aron Friðjónsson hafði komið gestunum í 3:2 með marki á 86. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson reyndist hins vegar hetja KA- manna er hann skoraði jöfnunarmark heimamanna á uppbótartíma.

KA byrjaði leikinn af krafti og það tók heimamenn aðeins 45 sekúndur að skora fyrsta markið og það gerði David Disztl er hann skallaði boltann yfir Ögmund Ólafsson í marki HK eftir fyrirgjöf inn í teig. Aðeins tveimur mínútum síðar var Andri Fannar Stefánsson nálægt því að bæta við öðru marki KA í leiknum er hann fékk dauðafæri inn í vítateig HK eftir sendingu frá David Disztl, en skot Andra fór framhjá markinu. KA hélt áfram að sækja og Disztl var nálægt því að bæta við öðru marki sínu leiknum á 5. mínútu, en skot hans úr fínu færi fór framhjá markinu. Eftir kröftuga byrjun heimamanna komust HK- menn meira inn í leikinn þegar á leið. Það var svo á 28. mínútu að HK náði að jafna metin og það gerði Guðmundur Steinn Hafsteinsson með fínum skalla af stuttu færi. Staðan í hálfleik, 1:1.

Gestirnir í HK byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og á 50 .mínútu kom Aaron Palomares HK 2:1 yfir, er boltinn datt fyrir hann inn í teig KA- manna og Aaron skoraði auðveldlega af stuttu færi. Það tók KA tíu mínútur að jafna leikinn og þar var að verki Hallgrímur Mar Steingrímsson með marki af stuttu færi og staðan 2:2. Mun meiri harka færðist í leikinn í seinni hálfleik og meira jafnræði með liðunum. Leifur Andri Leifsson var nálægt því að ná forystunni á ný fyrir HK á 79 .mínútu er hann skaut boltanum í stöngina úr þröngu færi. Skömmu síðar var Janes Vrenko komin í ágætt færi fyrir KA en skaut boltanum hátt yfir markið.

Fjórum mínútum fyrir leikslok kom Hólmbert Aron Friðjónsson HK 3:2 yfir og virtist það ætla að verða sigurmark leiksins. Þegar komið var fram á aðra mínútu uppbótartíma fékk Hallgrímur Mar boltann inn í vítateig gestanna og skoraði með góðu skoti af stuttu færi og tryggði KA stig úr leiknum. Lokatölur á Þórsvelli, 3:3.

Eftir fimm umferðir hefur KA sex stig í sjöunda sæti deildarinnar en HK átta stig í fjórða sæti.


Athugasemdir

Nýjast