Áramótapistill sveitarstjóra Hörgársveitar 2025

Áramót eru tími uppgjörs og nýrra væntinga. Þegar við kveðjum árið sem er að líða og horfum fram á árið 2026 gefst okkur tækifæri til að staldra við, líta yfir farinn veg og velta fyrir okkur framtíðinni í Hörgársveit.

Þetta ár er síðasta heila ár kjörtímabilsins sem lýkur í maí næstkomandi. Ljóst er að síðustu fjögur ár sem og árin þar á undan hafi verið mikil uppbyggingarár í Hörgársveit. Íbúum hefur fjölgað verulaga, langt umfram landsmeðaltal. Íbúfjöldi eru nú rúmlega 960 og styttist óðum í að þúsundasti íbúinn bætist í hópinn. Fjöldi íbúða er í byggingu og jafnframt liggja fyrir skipulagðar lóðir fyrir frekari íbúðauppbyggingu.

Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri Hörgársveitar

Sveitarfélagið hefur á undanförnum tveimur kjörtímabilum staðið fyrir mikilli og góðri uppbyggingu á leikskóla- og grunnskólahúsnæði. Á sama tíma sem börnum hefur fjölgað mikið í þessum tveimur grunnstofnunum samfélagsins hefur starfið þar elfst og fjölbreytnin aukist. Við erum ákaflega stolt af Álfasteini og Þelamerkurskóla og megum líka svo sannarlega vera það.

Sundlaugin okkar og íþróttamiðstöðin gegna mikilvægu hlutverki sem samkomustaður fyrir íbúa. Allir íbúar fá lýðheilsustyrk frá sveitarfélaginu til að sækja sundlaugina endurgjaldslaust og skora ég á íbúa að vera duglega nýta þá frábæru aðstöðu sem þar er, mæta og hitta aðra íbúa og gesti.

Árin sem eru að baki hafa verið viðburðarík í sveitarfélaginu. Samheldni íbúa, öflugt félagslíf og metnaður í uppbyggingu einkenndu þessi ár. Hvort sem horft er til skóla- og frístundamála, menningar, eða þjónustu við íbúa, þá hefur margt gott verið unnið með samstilltu átaki kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn, starfsfólks sveitarfélagsins og íbúa þess.

Samsetning samfélagsins í Hörgársveit er að breytast. Hærra hlutffall íbúa býr ár hvert í þéttbýliskjörnunum og hvergi á landinu er hærra hlutfall af íbúum á leikskólaaldri. Dreifbýlið heldur velli og vel það og hefur íbúum líka fjölgað þar á undanförnum árum og er það mjög gleðilegt. Þrátt fyrir breytt samfélagsmynstur styðjum við hvert annað og tökum sameiginlega ábyrgð á nærumhverfi okkar. Slík gildi verða sífellt mikilvægari á tímum breytinga og áskorana og eru styrkur sveitarfélagsins til framtíðar.

Árið 2026 býður upp á ný tækifæri. Fram undan eru verkefni sem kalla á framsýni, samráð og samstöðu. Með áframhaldandi uppbyggingu, vandaðri ákvarðanatöku og virkri þátttöku íbúa getum við haldið áfram að efla Hörgársveit sem gott og öruggt samfélag fyrir alla aldurshópa.

Ég vil þakka íbúum Hörgársveitar fyrir gott samstarf, elju og jákvæðni á liðnum árum og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Megi árið 2026 færa okkur heilsu, von og áframhaldandi vöxt í samfélagi sem við erum ákaflega stolt af.

Gleðilegt nýtt ár

Snorri Finnlaugsson

Sveitarstjóri Hörgársveitar

Nýjast