Stefnir í metár í jólavertíðinni – taka á móti allt að 4.000 manns í jólahlaðborð

Ingibjörg og Snæbjörn Bergmann, vertar á Múlabergi, standa vaktina í jólavertíðinni.
Ingibjörg og Snæbjörn Bergmann, vertar á Múlabergi, standa vaktina í jólavertíðinni.

Jólahlaðborð eru gríðarlega vinsæl meðal landsmanna í aðdraganda jóla. Múlaberg á langa hefð að baki og er sennilega stærsti aðilinn á Norðurlandi á því sviði. -segir Ingibjörg Bergmann Bragadóttir, einn af eigendum og veitingastjóri á Múlabergi.

„Jú, jólahlaðborðið hefur alltaf verið mjög vinsælt en við finnum alveg fyrir því að þetta er stærsta árið okkar til þessa. Það stefnir allt í að við tökum á móti allt að 4.000 manns í ár! Við lítum bara á þetta sem vertíðartímabil; allir að vinna alla daga í tvo mánuði og síðan kemur bara rólegur janúar á eftir,“ segir Ingibjörg en þegar þetta er skrifað stendur talan í 3.870 manns.

Stærsta teymi faglærðs framreiðslu- og matreiðslufólks á Norðurlandi
„Við erum gríðarlega heppin með starfsfólk og erum ótrúlega stolt af teyminu okkar á Múlabergi Bistro&Bar og Terían Brasserie en báðir staðir eru reknir af sama eigendahópi. Það er svo gefandi og skemmtilegt að vinna í svona faglegum hópi og það skilar sér svo vel til gesta þegar fagmennskan er í fyrirrúmi – það er allavega okkar markmið að upplifun gesta sé eftir því,” segir Ingibjörg.

 

Sex faglærðir framreiðslumenn á vaktinni í hádegisjólahlaðborði. Frá vinstri: Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, Jón Heiðar Sveinsson, Mónika Sól Jóhannsdóttir, Ingibjörg Bergmann, Snæbjörn Bergmann og Pétur Jónsson.

Múlaberg hefur verið með með nemaleyfi í matreiðslu og framreiðslu árum saman og sérstök áhersla er lögð á að skapa sterkt, faglegt teymi. Alls eru átta lærðir framreiðslumenn starfandi á Múlabergi og sjö faglærðir matreiðslumenn ásamt sex nemum í fögunum. „Gott ef við erum ekki með flesta faglærða einstaklinga á veitingahúsi á Norðurlandi, ef ekki öllu Íslandi,” bætir Ingibjörg við létt í lund.

Margir í mat á aðfangadag

Mikið er að gera á Múlabergi að kvöldi aðfangadags jóla. „Við sjáum um að hótelgestir fái hátíðarmat og svo er auðvitað fullt af ferðamönnum á Akureyri um jólin og einhvers staðar þurfa þeir að borða. Fáir staðir eru opnir og nauðsynlegt að einhver þjónusta sé í boði fyrir fólk sem dvelur hér yfir hátíðirnar.“

Hún segir líka færast í vöxt að heimamenn fari út að borða á aðfangadagskvöld. „Stundum eru þetta fjölskyldur en oftar er um að ræða pör á ýmsum aldri. Margir sjá það sem ákveðin fríðindi að geta sleppt öllum matarundirbúningi og frágangi heima, komið að borða hjá okkur snemma og farið svo bara heim í hreint hús til að opna pakka og hafa það notalegt. Stundum er fólk líka bara að breyta til og prófa eitthvað nýtt.“

Skötuhlaðborðið á KEA er hefð hjá mörgum

Aðspurð um skötuhlaðborðið á Þorláksmessu segir Ingibjörg það alltaf jafn vinsælt. „Það er gaman að sjá sömu andlitin ár eftir ár og svo auðvitað mörg ný í bland. Það er hluti af jólahefð margra að koma í skötu á Múlabergi á Þorláksmessu og við tökum á móti 400-500 manns þann dag.“

Hún segir að þetta sé mikill fjöldi á stuttum tíma og því þurfi allur undirbúningur og skipulag að vera upp á tíu. „Skipulag er alveg númer 1, 2 og 3 á svona degi. Þetta er samt alltaf mjög hátíðleg stund og gaman að taka á móti öllu þessu fólki – allir glaðir í bragði og hlakka til hátíðanna sem er mjög smitandi og skemmtilegt. Skötuhlaðborðið er órjúfanlegur hluti af jólunum okkar og myndar á sama tíma ákveðin lok á jólavertíðinni ógurlegu,“ segir Ingibjörg brosandi.

Margar hendur vinna létt verk! Matreiðslumenn á Múlabergi – frá vinstri: Hermann Svanur Guðjónsson, Guðni Sæmundsson, Hlynur Halldórsson, Otto Daníel og Ýmir Haukur Guðjónsson

Alltaf einhverjir sem detta óvænt inn

-Ég spyr Ingibjörgu hvernig gangi að samræma vinnuna og einkalífið um jól og áramót.

„Kannski ekki alveg eins vel og ég kysi. Vinnuálag á þessum dögum er hluti af því að vera í þessum bransa. Þó maður leggi oft upp með að reyna að vera sem mest í fríi þessa daga, hefur það ekki alveg gengið eftir síðustu ár. Ástæðan er sú að það er yfirleitt meira bókað en maður gerir ráð fyrir og svo eru alltaf einhverjir sem detta inn á síðustu stundu.“

Ferðamönnum bjargað á aðfangadag

Hún segir að það hafi líka áhrif hve fáir staðir séu opnir um jólin. „Við höfum alveg lent í því að við þurfum að redda meiri mat en við gerðum ráð fyrir. Margir ferðamenn átta sig alls ekki á því hve aðfangadagur jóla er stór á Íslandi, engar búðir opnar seinni hluta dagsins og nær allir veitingastaðir lokaðir.“

Að sögn Ingibjargar hefur komið fyrir að hungraðir ferðamenn mæti á Múlaberg á aðfangadagskvöld og sárbæni um að fá eitthvað að borða.

„Þeir hafa þá kannski keyrt frá Reykjavík til Akureyrar – og enginn söluskáli opinn á leiðinni. Svo er ekkert opið á Akureyri heldur, og jólin um það bil að fara í vaskinn. En það hefur blessunarlega alltaf reddast, það er ekkert annað í boði á jólunum!“ bætir hún við.

Allir glaðir í vinnunni

Þrátt fyrir allt annríkið í vinnunni á þessum árstíma segir Ingibjörg einstaklega gaman að vinna um hátíðirnar.

„Það er auðvitað allt með hátíðarbrag og svo eru bara allir svo glaðir að það er gaman að standa vaktina. Vissulega er það öðruvísi en að njóta heima með sínum nánustu en þetta er bara öðruvísi gott á margan hátt,“ segir hún að lokum.

 

Maria Elisabeth Hjartardóttir/MEH

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast