Jólahefðir Sundfélagsins Óðins

Keppendur á Desembermótinu fá heitt kakó og smákökur á milli greina.
Keppendur á Desembermótinu fá heitt kakó og smákökur á milli greina.

Ár hvert heldur Sundfélagið Óðinn í sínar rótgrónu og litríku jólahefðir sem hafa í gegnum árin skapað ógleymanlegar minningar fyrir bæði iðkendur og samfélagið í kringum félagið. Þrjár hefðir standa þar upp úr, hressilegt og óútreiknanlegt desembermót, töfrandi jólaæfing sundskólans og Þorláksmessuáskorunin.

Desembermótið – hetjur á pöllunum

Desembermótið er eitt af eftirminnilegustu mótunum hjá sundkrökkunum í Óðni. Það er haldið í Sundlaug Akureyrar og eins og margir vita er íslenskur desember ekki alltaf viðráðanlegastur. Aðstæður geta verið allt frá stillu og fallegri jólasnjókomu yfir í mikla rigningu og hávaðarok.

Katrín Sif Antonsdóttir, meðlimur í stjórn Óðins og yfirdómari, segir okkur aðeins frá mótinu „Reglan er einföld, fari frostið niður fyrir -10°C þarf að fresta mótinu. Því hefur mótið í gegnum tíðina oft færst til og sum ár oftar en einu sinni.

Einu sinni var mótinu frestað þrisvar sinnum sökum veðurs og var staðan orðin svo tæp að allt leit út fyrir að þyrfti að hætta við mótið. Á mótsdegi mældist frostið svo mínus 9,9°C og var ákveðið að láta slag standa. Enginn mátti líta á hitamælinn aftur fyrr en mótinu lauk.“

Það getur verið kalt á bakkanum þegar keppendur stinga sér

Dómarar sáu ekki keppendurna!

Þetta mót er það eftirminnilegasta sem hún hefur tekið þátt í og rifjar mótið oft upp með sínu fólki, það er mikið hlegið.

Það árið var mótið keyrt hratt, um leið og síðasti sundmaður snerti bakkann í einum riðli var næsti riðill ræstur. Krakkarnir biðu inni í heita pottinum og hlupu út á palla á síðustu stundu og voru þá dómararnir búnir að ausa vatni yfir stökkpallana svo að keppendur myndu ekki renna til í hálkunni.

„Það árið var gufan svo mikil að dómarar sáu ekki keppendur í lauginni. Við þurftum þá að hlusta vel eftir því hvort það væri ennþá einhver að synda.“

Frábærir krakkar

Katrín Sif hrósar krökkunum mikið og segir að það sé virkilega gaman að sjá hvað þau eru með ótrúlega harða krakka sem láta veðrið ekkert á sig fá. Þeir syndi á sínum bestu tímum, slái met og gefi allt sitt í sundið. „Þeir eru hetjur fyrir það að taka þátt í þessu með okkur. Alveg ótrúlegt að þau frjósi ekki bara föst við stökkpallana.

„Það er líka einstakt þegar við fáum hið fullkomna jólaveður,“ segir Katrín „Stór snjókorn dansa til jarðar og stemningin verður hátíðleg.“

Desembermótið er ákveðin klikkun

Katrín Sif talar um að það geti verið erfitt að halda Desembermótið. Það hafi verið svo erfitt að fyrir nokkrum árum að leggja niður Desembermótið þar sem félagið hafi fengið nóg af því að vera alltaf að fresta mótinu og finna nýjan tíma.

„En það var ákveðið að endurvekja þessa hefð þar sem það er nauðsynlegt fyrir dómarana okkar og krakkarnir sjálfir hafi viljað fá mótið inn aftur.

Það er líklega klikkun að vera með mót í útilaug í desember, en þetta er aðstaðan sem við höfum og þó hún sé ekki upp á sitt allra besta og geti verið heftandi, þá gerum við okkar besta úr þessu,“ segir Katrín Sif.

Töfrandi stund í kringum fljótandi jólatré

Í sundskólanum er jólahefðin engu að síður kær. Á síðustu æfingu fyrir jól mæta yngstu sundbörnin á hátíðlega æfingu þar sem synt er í kringum jólatréð. Lítið og fallegt tré sem Dilla, þjálfari sundskólans, festir á kork svo það fljóti á vatninu.

Krakkarnir syngja saman, synda í kringum tréð og njóta þess að upplifa jólagaldurinn í lauginni. „Litlu krökkunum finnst þetta algjörlega magnað,“ segir Katrín. „Það er svo dásamlegt að sjá gleðina og undrunina í augum þeirra.“

Að æfingu lokinni tekur jólasveinn á móti krökkunum í anddyri Glerárlaugar og afhendir litla jólagjöf frá sundskólanum. Dagurinn er ein af skemmtilegustu stundum vetrarstarfsins.

Þorláksmessuáskorunin

Þorláksmessuáskorunin er gömul hefð sem sundfélagið hefur verið að reyna endurvekja. Hún snýst um það að allir sem vilja, bæði sundmenn félagsins og bæjarbúar, komi í Sundlaug Akureyrar á Þorláksmessu og syndi 1.500 metra. Skemmtileg áskorun og góð hreyfing áður en allir fara í jólafrí.

Gildi hefðanna er gleði, samfélag og minningar

„Ég held að flestar hefðir og önnur uppbrot í íþróttum, hvort sem það er í sundinu eða einhverri annarri íþrótt, séu mjög mikilvægar fyrir krakkana. Að þeir fái að eiga þessar minningar, fái að njóta þess að skapa þær og við fullorðna fólkið verðum að gefa okkur tíma til að taka þátt í þessum viðburðum með krökkunum.

Það er nú þannig að fullorðna fólkið hefur alveg jafn gaman af þessum hefðum. Það hafa allir gott af því brjóta aðeins upp starfið. Hvort sem er að keppa í kuldanum, synda í kringum jólatré eða fá gjöf frá jólasveininum.“

Díana Marin Sigurgeirsdóttir/DMS

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast