Minjasafnið á Akureyri Jólin sem hluti af safnastarfinu

„Jólin eru stór hluti af starfinu okkar,“ segir Haraldur Þór Egilsson safnstjóri þegar hann lýsir aðventunni hjá Minjasafninu á Akureyri. Á hverju ári koma um eða yfir þúsund börn og kennarar í jólafræðslu sem hefur verið fastur liður í áratugi. Fræðslan fer fram bæði á Minjasafninu sjálfu, í Nonnahúsi og í Minjasafnskirkjunni og hefur fest sig rækilega í sessi sem mikilvægur hluti af jólaundirbúningi margra skóla.

„Í ár ákváðum við að breyta aðeins til,“ segir Haraldur og útskýrir að nú sé boðið upp á söngstund í bland við sögur og fræðslu um jólahald fyrri tíma.

Gestir fá að kynnast jólahaldi fyrri tíma með því að skoða gamla gripi og hlusta á sögur um hvernig fólk undirbjó jólin áður fyrr. Söngstundina leiða Sesselía Ólafsdóttir leikkona og Sigríður Hulda Arnardóttir, söngkona og kennari. Sögustundin fer fram á sýningunni Tónlistarbærinn Akureyri. „Það gefur þessu svo fallega og hlýja jólastemningu,“ segir Haraldur.

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri

Sjón er sögu ríkari

Haraldur segir að jólin séu sýnileg á öllum sýningunum á einn eða annan hátt. Á Iðnaðarsafninu eru jólavörur dregnar fram, en í Nonnahúsi fær nostalgían að njóta sín, jólaskrautið úr fortíðinni er til sýnis og þar er umfjöllun um hvernig undirbúningur jólanna fór fram í húsinu.

Þann 7. desember sl. var sérstök dagskrá í samstarfi við þjóðháttafélagið Handraðann þar sem gestir gátu fylgst með kertagerð, séð hvernig jólatré urðu til og voru skreytt ásamt ýmsu öðru sem tengist hefðum jólanna.

Haraldur rifjar einnig upp að safnið hafi árum saman haldið jólastarfsdag í Laufási, en eftir að hann var blásinn af tvisvar í röð vegna veðurs færðist dagskráin í Nonnahús þar sem hún hefur síðan blómstrað. „Það var bara ekki hægt að kveikja á hlóðunum, stormurinn gerði allt erfitt, þannig að við fluttum viðburðinn, og það var góð ákvörðun.“.

Svo eru það jólagluggarnir sem mörgum eru minnisstæðir. „Við vorum með þá í miðbænum árum saman“, segir hann, „en í dag setjum við þess í stað upp jólasýningar inni á safninu.“

Í ár eru það skreytingar úr gluggum stórverslunarinnar Amaro sem vekja athygli. Að auki má sjá gamlar myndir úr versluninni og bókabúðunum. Haraldur bendir á að sjón sé sögur ríkari og að fólk eigi það til að gleyma að heimsóknir í bókaverslanir voru stór hluti af jólunum.

Þetta jólatré frá Þverá í Skíðadal er meðal safngripa og skartar sínu fegursta á aðventunni.

Jólasveinar líta við og tónlist fyllir húsið

Haraldur segir að nostalgían sé stór hluti af aðventunni, og ein vinsælasta sýning safnsins sé jólafjallið þar sem Grýla og jólasveinarnir búa. „Fólk elskar að skyggnast þangað inn og sjá heimili þeirra, og þetta verður aldrei leiðinlegt.“ Í ár vill safnið líka minna á jólasveinana sem sjást sjaldnar, „þessa sem koma ekki endilega til byggða, eða gera það í laumi.“ segir hann.

Börnin bíða svo sérstaklega eftir jólasveinunum úr Dimmuborgum sem heimsækja safnið ár hvert: „Þá fyllist allt, það er alveg einstök stemning þegar þeir koma.“

Tónlistin gegnir jafnframt stóru hlutverki í jólahaldi safnsins: „Jólin eru svo tengd tónlist,“ segir Haraldur. „Það er svo hátíðlegt þegar þessi hljóðfæri fylla rýmið.“

 

Jólastemning hverja helgi

Dagskráin á safninu er þétt alla aðventuna, með tónleikum, fræðslustundum, opnun í Leikfangahúsinu, jólasveinahittingi og ýmsu fleiru. „Það gerist eitthvað um hverja einustu helgi fram að jólum,“ segir Haraldur, „og við reynum að hafa eitthvað fyrir alla. ,,Fólk kemur bæði til að læra, njóta og bara finna jólastemningu.“

Þegar spurt er hvað honum finnist sjálfum mikilvægast við jólahaldið stendur ekki á svari: „Jólin eru tími nostalgíunnar. Fólk leitar í hlýjuna, minningarnar og róna. Það er einmitt það sem við viljum skapa hér, rými þar sem gestir geta átt góðar stundir og fundið í sér jól.“

 

Stefán Arnar Pétursson/SAP

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

 

 

Nýjast