Í Beykilundi á Akureyri stendur gríðarstórt jólatré. Tréð vekur mikla athygli á ári hverju. Það stendur í garðinum hjá Sævari Helgasyni sem passar að það sé vel skreytt.
„Ég skreyti náttúrulega alltaf tréð. Ætli ég hafi ekki byrjað fyrir fimmtán árum, við höfum verið hér í tuttugu ár tæp. Ég er alltaf mjög spenntur fyrir þessu, reyni að kveikja á því fyrst í nóvember þegar farið er að dimma,“ segir Sævar og bætir við að hann skreyti einnig þakskeggið á húsinu. Ljósunum leyfir hann að loga fram yfir miðjan janúar.
Kynnumst trénu
Grenitréð í garðinum er rúmlega fimmtíu ára gamalt, eða jafn gamalt húsinu sem það stendur við. Sævar telur það vera á milli tólf og fjórtán metra á hæð en hann hafði ekki nákvæma tölu á því.
„Það er greinilega alltaf að stækka, enda finn ég það á seríunum. Upphaflega fóru um tvö hundruð metrar af seríu á tréð, sem sagt tuttugu hundrað ljósa seríur eða tvö þúsund ljós. Ætli það séu ekki 280 metrar núna, 2.800 ljós,“ segir hann.
Til að spara sér tíma leyfir Sævar seríunum að vera í trénu yfir árið. „Ég slekk bara á þeim yfir sumarið. Svo fer það allt eftir því hvernig veturinn og sumarið leikur seríurnar hvað ég þarf að endurnýja.“
Sævar fær til sín körfubíl til að ná upp í tréð. Sjálfur fer hann upp og fær mann til að stýra bílnum. Kostnaðinn segir hann felast í því að skipta út slitnum seríum og að borga manninum. „En ég tel það ekkert eftir mér því þetta er gaman. Ef ég þyrfti að borga allar seríurnar á hverju ári myndi ég reyndar örugglega ekki gera þetta,“ segir Sævar og hlær.
„Ég hef breytt töluvert hvernig ég geri þetta frá því að ég byrjaði. Ég hef séð hvernig vindurinn og annað fer með þetta. Þetta var allt of stíft hjá mér fyrst og þá slitnaði meira þegar leið á árið.“ Hann segist hafa lært það með tímanum að hafa slaka á seríunum til að lágmarka líkurnar á skemmdum.
Meiri tré, meiri tré, meiri tré
Fjölskylda Sævars er mikið jólafólk og er stóra tréð ekki það eina sem Sævar skreytir á hverju ári. Fyrir utan húsið eru tvö minni tré sem standa sitt hvoru megin við inngang hússins.
„Ég skreyti yfirleitt þessi þrjú úti.“ Hann segir 70 metra af seríu fara á hvort af minni trjánum. „Svo erum við alltaf með lifandi tré uppi í stofunni. Við höfum gott rými fyrir það, þannig að ég get alveg haft tré sem er 2,30 metrar á hæð.“ Spurður hvort hann telji hin trén geta orðið jafn há segir Sævar: „Neðra tréð er á þannig stað að það hefur lítinn jarðveg. Það mun líklegast ekki ná sömu hæð. Ég er sannfærður um það að tréð hér fyrir framan muni þó ná sömu hæð, það er bara spurning hvort það verði ég sem skreyti það.“
Jólahefðirnar
Sævar heldur uppi hefðum ættarinnar og veiðir rjúpur í jólamatinn Fjölskyldan fer í göngu á Jóladag, ýmist upp að Gamla eða á Skólavörðu. Hann telur það nauðsynlegt að hreyfa sig til að geta borðað vel yfir hátíðirnar.

Sævar er mikill útivistarmaður. Hér er
hann í góðum gír og auðvitað klæddur
við hæfi.
„Við sitjum og púslum mikið yfir jólin. Við púslum alltaf Wasgij, þar sem maður veit ekki hvað gerist. Við erum þrjú sem erum hörðust í þessu en það taka allir þátt. Við byrjum á aðfangadagskvöld eftir að allir eru farnir og púslum fram á nótt. Þá sortera ég púslin eftir litum og ramm og hinir sjá um að setja púslið saman. Síðan kem ég inn í þetta þegar það er komin aðeins mynd á þetta.
Sævar segir fjölskylduna vel skipulagða yfir jólin. „Ég hef aldrei upplifað þennan tíma sem stress. Mér hefur alltaf fundist hann skemmtilegur þó það sé mikið að gera og að maður hitti margt fólk. Mér finnst þetta svona skemmtilegt stress en ég geri mér grein fyrir því að það finnst ekki öllum. Ég lít á þetta sem gleði- og samverutíma með fjölskyldunni.“
Hann segist vera meðvitaður um það að ekki verði allir heima um jólin að eilífu. Sævar kýs því að reyna sitt besta að njóta jólanna á hverju ári með fjölskyldu og vinum.
Á toppnum um jólin?
Sævar er mikill stuðningsmaður Arsenal F.C. á Englandi. Stuðningsmenn félagsins bera viðurnefnið Gunners en bíllinn hans Sævars hefur einmitt einkanúmerið Gunner.
Við töku viðtalsins var Arsenal í efsta sæti í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu. „Ég hef trú á því að við verðum á toppnum um jólin en hvort við verðum það í vor er annað mál. Þetta er fljótt að breytast. Ég er samt búinn að tryggja mér miða á síðasta leikinn í vor,“ segir hann vongóður.

„Gunner“ glæsivagn

Baldvin Kári Ólafsson/BKÓ
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.