Frímann Sveinsson, oft kallaður Frímann kokkur, hefur komið víða við á sínum ferli og hefur alltaf nóg að gera. Líkt og viðurnefnið gefur til kynna, starfaði Frímann sem matreiðslumaður og þar lengst af á sjúkrahúsinu á Húsavík. Frímann er einnig lunkinn með pensilinn og hefur haldið fjöldann allan af myndlistarsýningum
á Húsvík, Neskaupstað og Hafnarfirði. Gítarinn er aldrei langt undan hjá Frímanni og hann er duglegur að spila fyrir og skemmta íbúum Húsavíkur og nágrennis.
Í matreiðslu í fimmtíu ár
Frímann fór í Hótel- og veitingaskólann sautján ára gamall að læra matreiðslu, en áhuginn var ekki alltaf til staðar hjá honum.
„Ég kunni ekki einu sinni að sjóða egg þegar ég fór í Hótel- og veitingaskólann, sautján ára gamall. Frændi minn var kokkur og ég leit upp til hans, hann var svona fyrirmynd, og ég fór i þetta nám og ég valdi svo sannarlega rétt. Þannig að það var ekkert í mér sautján ára gömlum unglingnum sem sem hvatti mig til þess að fara í þetta nám,“ segir Frímann léttur.
Frímann hefur verið í matreiðslu í fimmtíu ár og útskrifaðist úr Hótel- og veitingaskólanum 1976 og flutti austur í Neskaupstað með konunni sinn, og flytur til Húsavíkur 1987 þegar auglýst var eftir matreiðslumanni á Hótel Húsavík.
„Í gamla daga vann ég sem matreiðslumaður á Hótel Húsavík og síðan var ég síðustu sautján árin sem yfirmaður í eldhúsinu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og hætti að vinna í apríl 2022.“
Nóg fyrir stafni þó hann sé hættur að vinna
Þrátt fyrir að Frímann sé hættur að vinna er alltaf nóg að gera og hann situr aldrei auðum höndum.
„Ég hef alla tíð spilað á gítar og hef verið að trúbbast svona í gegnum tíðina og er enn að spila á almannafæri. Ég hef til dæmis í rúm tuttugu ár spilað annan hvern fimmtudag á dvalarheimilinu Hvammi og haft þar söngstund með íbúum dvalarheimilisins. Eins hef ég farið á Skógarbrekku, sem er öldrunardeild á sjúkrahúsinu. Þangað hef ég reynt að fara nánast á hverjum þriðjudegi í hálftíma og sungið með fólkinu þar. Þetta er afskaplega gefandi og virkilega gaman. Svo erum við í kórnum Sálubót og keyrum einhverja hundrað kílómetra fram og til baka, suður í Stóru-Tjarnir á æfingar á hverjum þriðjudegi yfir vetrarmánuðina.“
Skíði og barnabörn
Frímann er einnig duglegur að ferðast með konunni sinni, og þau hafa farið á skíði bæði innanlands og erlendis.
„Við hjónin höfum farið síðustu fimmtán ár til Ítalíu á skíði, og svo skíðum við hérna heima; bæði á Akureyri, Húsavík og austur í Oddsskarði. Við eigum sumarhús í Neskaupstað, sem við eyðum mörgum stundum í. Svo á ég börn og barnabörn sem þarf að sinna og ég geng á hverjum degi núna. Við hjónin förum í sund nánast á hverjum degi og hittum þar fólk, það er mikil dægrastytting í því.“
Jólin alltaf haldin hátíðleg
Frímann segist hafa verið mikið jólabarn í gegnum tíðina. Hann vann alltaf á aðfangadag þegar hann vann á sjúkrahúsinu og sá um jólamatinn fyrir sjúklinga þar og íbúa á dvalarheimilinu Hvammi, og jafnvel á Jóladag og annan í jólum. Hann lét það þó ekki hafa áhrif á jólahald með fjölskyldunni.
Bara eftir að smella þessu saman
„Maturinn var það snemma á sjúkrahúsum og öldrunarheimilum að ég var yfirleitt kominn heim um hálf sex. Þá var ég búinn að gefa að borða uppi á sjúkrahúsi og búinn að senda matinn í hitaskáp á dvalarheimilið. Frúin var búin að henda lambahryggnum inn í ofn og sjóða kartöflur og þá átti bara eftir að smella þessu saman, sykurbrúna og gera sósu. Við vorum ekkert að stressa okkur á að vera með þetta tilbúið klukkan sex, borðuðum kannski hálf sjö eða sjö, sérstaklega eftir að börnin fóru að heiman. Það var kannski meiri pressa að borða klukkan sex þegar krakkarnir voru heima. Eftir að við urðum tvö tókum við þessu rólega, borðuðum bara þegar maturinn var tilbúinn, tíminn skipti ekki máli.“
Frímann og fjölskylda hafa alla tíð borðað íslenskan lambahrygg á aðfangadag, hann var alinn upp við það og hefur haldið í þann sið. Fjölskyldan er svo með aðeins öðruvísi venjur þegar kemur að hangikjötinu.
Heitt eða kalt hangikjöt?„
,,Við borðum alltaf hangikjöt um jólin og þar kemur pínu austfirskur siður frá konunni, við höfum borðað það heitt en ég var alinn upp við að borða það kalt. Það er alltaf makkarónujafningur með og grænar baunir, því hafði ég ekki kynnst og ekki smakkað fyrr en ég kynntist konunni minni. Ég var vanur að fá bara kartöflur og uppstúf, það er nú algengast með hangikjötinu. Heima hjá henni í Neskaupstað voru soðnar makkarónur og þær svo settar út í uppstúf og borðaðar með hangikjötinu. Mér þótti þetta afskaplega skrýtið fyrst og ég gat ekki borðað þetta, en núna finnst mér þetta algjört sælgæti með hangikjötinu.“
Málar sín eigin jólakort
Frímann er duglegur að mála og hefur haldið margar myndlistarsýningar og segir það vera mjög góða dægradvöl að dunda sér við að mála yfir dimma tímann á veturna. Frímann hefur einnig tekið upp á því að mála sín eigin jólakort.

Frímann málar sín eigin jólakort
„Ég hef undanfarin tuttugu ár, ef ekki lengur, handmálað vatnslitakort. Ég var einmitt að klára kortin sem ég ætla að senda í ár. Allir fá mismunandi kort, því ég er með sérstakt kerfi á þessu.“

Orri Már Arnarson/OMA
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.