Björn Gíslason ráðinn verkefnastjóri atvinnuuppbyggingar á Bakka

Björn Gíslason til vinstri og Bergþór Bjarnason til hægri við undirritun ráðningar í dag
Björn Gíslason til vinstri og Bergþór Bjarnason til hægri við undirritun ráðningar í dag

Björn Gíslason hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra atvinnuuppbygginar á Bakka við Húsavík. Hlutverk verkefnastjóra er að ýta úr vör nýjum verkefnum á Bakka við Húsavík, styðja fjárfesta með greinargóðum upplýsingum og samhæfa vinnu lykilaðila að stórum fjárfestingum á svæðinu. Björn mun hefja störf í janúar.

Umsækjendur um starfið voru 12 talsins og var ráðningarferlið unnið í samstarfi við ráðningarþjónustuna Mögnum.

Björn var framkvæmdastjóri Stefnu frá árinu 2021 og hefur stýrt því fyrirtæki í gegnum miklar breytingar sem leitt hafa til tekjuvaxtar. Áður starfaði Björn m.a. sem fjárfestingarstjóri hjá KEA þar sem hann kom að mati á fjárfestingarkostum og mati á tækifærum og viðskiptahugmyndum sem og sem sjóðsstjóri fjárfestingarsjóðsins Tækifæris hjá Íslenskum verðbréfum til margra ára. Björn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og tekið þátt í stefnumótun og rekstri fyrirtækja og mati nýsköpunarhugmynda. Einnig hefur Björn mikla reynslu sem verkefnastjóri þar á meðal hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Björn er með B.Sc menntun í sjávarútvegsfræði og M.Sc í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum á Akureyri auk MBA gráðu frá Copenhagen Business School.

„Ég hlakka til að hefja störf og takast á við spennandi verkefnin sem eru framundan fyrir Bakkasvæðið og atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi“ sagði Björn Gíslason, nýráðinn verkefnastjóri við undirritun starfssamnings í dag.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri segir að mikill áhugi hafi verið fyrir starfinu og að Björn hafi verið ráðinn úr hópi hæfra umsækjenda. „Björn hefur mikla reynslu sem mun nýtast okkur vel í krefjandi verkefnum komandi vikna og mánuða í atvinnuuppbygginu á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að geta haldið tímalínu með því að klára þessa ráðningu fyrir áramót enda mjög aðkallandi að fá á þessum tímapunkti inn sterkan aðila með skýra sýn á að landa nýjum verkefnum á Bakka“.

Nýjast