Hluti starfsfólks í vinnsluhúsum Samherja á Akureyri og Dalvík sótti í gær skyndihjálparnámskeið með áherslu á rétt viðbrögð í neyð og fyrstu aðstoð í skyndihjálp.
Námskeiðið var lokahlutinn af námskeiðum sem veita starfsfólki rétt á að kallast „sérhæfður fiskvinnslumaður“ og er hluti af kjarasamningsbundnum réttindum fiskvinnslufólks.
Námskeiðin voru keyrð rafrænt í haust í samvinnu við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar ( Símey) og Fisktækniskólann.
Rauði krossinn hefur sérhæft sig í skyndihjálparnámskeiðum og segir Franz Halldór Eydal leiðbeinandi í skyndihjálparteymi félagsins að rétt viðbrögð í skyndihjálp geti sannarlega bjargað manneskju í neyð.
Námskeiðin sniðin að þörfum fólks sem starfar í fiskvinnslu
„Þetta námskeið sem við höldum fyrir starfsfólk Samherja tekur fjórar klukkustundir og er sniðið að þörfum fólks sem starfar í fiskvinnslu. Farið er yfir ýmis grunnatriði skyndihjálpar, svo sem endurlífgun, hnoð og hvernig bregðast á við bráðum veikindum og áverkum. Allir fá svo í lokin skírteini sem sýnir að viðkomandi hefur sótt slíkt skyndihjálparnámskeið.“
Upprifjun nauðsynleg
Franz Halldór segir að flestir þátttakendur hafi almennt ágæta þekkingu á skyndihjálp, upprifjun sé þó alltaf nauðsynleg.
„ Skyndihjálp hefur þróast á undanförnum árum samfara auknum rannsóknum og upplýsingum, þess vegna eru slík námskeið nauðsynleg. Upprifjun er sem sagt afskaplega mikilvæg og styrkir viðkomandi, þess vegna fagna ég því þegar fyrirtæki á borð við Samherja bjóða starfsfólki sínu að sækja slík námskeið í vinnunni.“
Þekking sem enginn vill þurfa að beita
Franz Halldór að segir dæmin sanni að góð færni í skyndihjálp hafi bjargað mannslífum.
"Allir ættu að hafa góða þekkingu í skyndihjálp. Hitt er svo annað mál að skyndihjálp er dýrmæt þekking sem enginn vill þurfa að beita á lífsleiðinni. Komi hins vegar til þess, getur slík þekking bjargað mannslífi og dæmin eru fjölmörg eins og flestir vita.“
www.samherji.is sagði fyrst frá