Mjög góð kirkjusókn hefur verið á Akureyri um jólin og er greinilegt að það færist í vöxt að fólk sæki messu í sina kirkju.
,,Alls voru 927 gestir samanlagt í jólamessum Akureyrar og Laugalandsprestakalls, þetta er mjög góð kirkjusókn og betri en undarfarin ár, við höfum ekki séð svona í langan tíma" sagði sr. Hildur Eir Bolladóttir prestur við Akureyrarkirkju í samtali við Vikublaðið.

Séra Hildur Eir Bolladóttir
Aðspurð hverju hún þakkaði þennan aukna áhuga fólk á þvi að mæta til messu sagði Hildur ,,Ég held að það séu pendúláhrifin. Fólk elskar kirkjuna en fer stundum í fýlu við hana eins og við mömmu sína og elskar hana þá bara úr fjarlægð og svo fer það að sakna hennar og finnur að hún er kletturinn í lífinu og það kemur til baka.
Þetta er ekki spurning um persónur heldur líðan þjóðar, kirkjan er festi í lífinu eins og allar góðar mömmur" sagði Hildur ennfremur.
Aftansöngur á aðfangadagur vel sóttur í Glerárkirkju
,,Við upplifum að þátttaka um jól sé góð og í takti við það sem hefur verið undanfarin ár. Hér hefur hinsvegar verið breytt dagskrá, færri athafnir en áður. Aðfangadagur var vel sóttur en það var eitthvað rétt tæplega 300 manns sem komu til aftansöngs og miðnæturmessu" sagði sr. Sindri Geir Óskarsson prestur við Glerárkirkju.

Séra Sindri Geir Óskarsson
Og hann bætir við: ,,Jóladagur hefur alltaf verið rólegur hér og við reyndum að vera með eina messu á dvalarheimilinu Lögmannshlíð í stað þess að messa í Glerárkirkju og svo uppfrá í von um að reyna að ná samfélaginu hér saman þar, en það varð frekar rólegt eða rétt yfir 40 manns.
Svo var ekkert helgihald annan í jólum og næst verður á gamlárs kl. 17" sagði sr. Sindri Geir að lokum.